mánudagur, september 09, 2002

Shakespeare & co.


Var að svara Óla áðan á kommentunum og í skrifleti minni stytti ég Shakespeare, Tolstoj, Hemingway og Kafka (sem hefði auðvitað getað orðið mun lengri upptalning til að byrja með) í Shakespeare & co. Sem minnti mig á sérstaklega sjarmerandi bókabúð með því nafni. Hún er staðsett í nokkrum borgum Evrópu, þar á meðal Vínarborg og Róm minnir mig, sú sem ég fór í var í París. Það voru beddar uppi, ferðalangar unnu þarna oft gegn gistingu, og svo var köttur nokkur að þvælast um í mestu makindum. Mig hafði svosem lengi grunað að ég ætti einhverntímann eftir að vinna í bókabúð en þarna fékk ég það staðfest. Ég var í grænköflóttu skyrtunni sem ég fékk í arf frá bróður mínum og minnir mig alltaf á Dead Poets Society og var í mestu makindum að skoða úrvalið, frekar utan við mig samt. Þá spyr kona nokkur mig hvort við séum með Catcher in the Rhye. Ég verð eðlilega hissa á svipinn og hún gerir sér grein fyrir mistökunum og biðst afsökunar á misskilningnum. Áður en ég næ að svara þá verður mér litið niður á puttana á mér sem eru einmitt að styðja sig við umrædda bók Salingers. Ræddi svo lítillega við fylgdarmann konunar um Paul Auster - önnur tilviljun þó ég muni ekki hvernig það kom til - En þessi örlagafulla fingrasetning mín hefur vafalítið haft áhrif á starfsvetvang minn undanfarna fjórtán mánuði. En nú er ég að fara að hætta að vinna í bókabúð bráðum, einungis vika eftir. Ég skrifa kannski meira um það seinna - en vissulega er mínus á sjoppunni okkar að þar eru engin gæludýr.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home