Gambrinn skrapp á mánudaginn til Brno (Brunná ef borið fram passlega hratt!), sem er eins og þið náttúrulega öll vitið höfuðborg Móravíu og næststærsta borg Tékklands. Þetta er um það bil tveggja tíma rútuferð frá Zlín, ég þurfti að komast í smá menningu. Eitthvert þar sem ég gat keypt tímarit á ensku, jafnvel farið á bíó og sofið eina eða tvær nætur í mjúku rúmi. Mitt svolítið mikið hart sko. Þegar komið er á rútustöðina þá er fyrst brú yfir umferðina, svo göng niðrí lestarstöðina (en þar var falskasti harmoníkkuleikari Tékklands að reyna að sarga I Just Called to Say I Love You, líklega eilíft blankur), það er mjög einfalt raunar, þú fylgir bara straumnum fyrst þegar þú ert að átta þig. Þegar þú kemur upp úr göngunum blasir Grand Hotel við – og það er rauð slaufa bundin utan um það og jólasveinar að klifra upp um alla veggi. Gleðileg jól, gjöriði svo vel.
Straumurinn heldur svo áfram inn aðalgötuna Masarykovu sem breytist svo í aðaltorgið, námesti Svobody. Það var orðið fullt af tréhúsum, básum fyrir jólasöluna, en þeir voru ekki enn búnir að opna. Svobodytorg skiptist svo í þrjár götur ef þú ferð beint áfram, ein þeirra er Èeska þar sem Hotel Avion var. Merkilega ódýrt, sérstaklega þegar haft er í huga að það er alveg í hjarta miðbæjarins – og miðað við að allir lyklarnir voru í hólfunum sínum þá sýndist mér að það væri einn gestur að mér undanskildum. Sá hann svo sem aldrei. Asnaðist til að sofna fljótlega eftir að ég kom, lítill svefn nóttina á undan og afskaplega heillandi rúm. Vaknaði svo klukkan fjögur og las Roddy Doyle fram á morgun þegar ég ákvað að fara að túristast aðeins svona til tilbreytingar. Það er skemmtilegur gosbrunnur (sem að vísu er núna vatnslaus) á einu hliðartorginu þar sem í miðjunni er maður í úlfsham með þríhöfða hund í keðju, ég kannast rosalega við þetta en er ekki alveg að kveikja samt. Þvælist aðeins neðar í bæinn, lít upp og sé Špilberk-kastalann fræga, geng nokkur skref og lít upp aftur, viðkomandi kastali horfinn. Spurning þetta er ekki ættaróðal brellumeistarans Spielbergs? Annars notuðu Habsborgarar kastalann helst til að kvelja óvini sína. Labba svo fram hjá reðurtákni sem er dulbúið sem, hmm, storkur? Jú, það er nokkuð útpælt listaverk. Sporvagnarnir eru kunnuglegir, nákvæmlega eins og þeir í Prag. Nýt samt miðbæjarlífsins og sleppi þeim alfarið. Mér finnst gott að geta labbað allt, sérstaklega eftir allan þennan tíma útí rassgati.
Fór svo á bíó um kvöldið, Red Dragon. Ekkert meistaraverk svosem en mjög góð samt, betri en Silence sem var vissulega ekkert meistaraverk hvað sem hver segir. Góð þessar tólf mínútur sem Hopkins var á skjánum, þess utan gerðist lítið merkilegt þó Foster væri traust. Hér aftur á móti höfum við Fiennas, jafngóðan ef ekki betri leikara en Hopkins sem illmenni á móti Lecter – og þó Norton hafi oft verið betri þá er atriðið þegar hann kemur frá fyrstu heimsókn sinni í klefa Lecters og svitastorkinn skyrtan hans svíkur yfirvegað yfirborðið. Svo er Emily Watson náttúrulega alltaf góð, þetta er vissulega hálfgert leikarastykki en samt með nógu góðri sögu til að það bjargist. Leikstjórinn kannski aðeins of æstur í að heilla þannig að einstaka sinnum sleppur hann yfir í melódrama en annars fínn, vissir hlutir frekar mikið stolnir úr Psycho náttúrulega. Skemmtilegt líka að sjá yfirkennarann úr Boston Public leika nær eingöngu með útþöndum nasavængjunum.
Talandi um dreka, það á víst einhver dreki að vakta bæinn. Að vísu er þessi dreki uppstoppaður og lítur barasta nákvæmlega eins út og krókódíll, en eins og fólk veit þá eru þeir ekkert sérstaklega hættulegir, enda tilvist þeirra viðurkennd af flestum dýralífsfræðingum. Sniðugur kall samt, hefur verið einhver nobody í Afríku, skreppur til Tékklands og borðar nokkra túrista og verður goðsögn. Jamm, enginn er spákrókódíll í sínu föðurlandi. Og hverjir veita svo verðlaun fyrir aulabrandara ársins?
Daginn eftir þá verslaði ég nokkrar jólagjafir og tók svo rútuna til Zlín. Það var samt eitt sem olli mér áhyggjum í Brno, það er verið að selja hnífa út um allt. Í sölubásunum á lestarstöðinni voru allstaðar hnífar, leikfanga og alvöru, kannski eitthvað með það að gera að Lonely Planet varar sérstaklega við einhverju einu hverfi í miðbænum (sem ég hef sjálfsagt vilst í) sem sérstaklega hættulegu, það var ekkert svona hverfi í Prag. Enda Móravar vissulega barbarískari þjóðflokkur en friðelskandi Bæheimsbúar. En hvað um það, ég á náttúrulega hápunktinn eftir, hann er sérstakrar færslu virði.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home