miðvikudagur, janúar 29, 2003

p i l l s

Þriðji í ferðasögu

Sef og vakna. Landamærin vekja mig. Fulltrúi þeirra biður um vegabréf.

I've taken all my pills
but I'm still not sleepy
tried to trick myself into thinking
that I'm not awake
that it's only a dream
put that cigarette out
don't ask me no questions


Ég vakna, er að koma inní Slóveníu. Ég ætti kannski að fara að rukka þetta fólk sem er alltaf að koma og skoða passann minn, sérstaklega þar sem það skoðar hann alltaf lengur en nauðsynlegt er af því það hefur aldrei séð íslenskt vegabréf áður. Þar af leiðandi þarf að sýna öllum hinum landamæravörðunum það líka. Hvað um það, spurning að vera skipulagður, ákveða hvað er vert að skoða í Ljubljana áður en ég kem þangað?
Tek punkta um það sem einhverjum ferðabókaskrifurum fannst merkilegt, kannski tekst mér einhverntímann að vera skipulagður ferðalangur. Annars vil ég helst bara þvælast, villast, fara þangað sem nefið leiðir mig. Þar sem ég er krónískt kvefaður þá geta það verið furðulegustu staðir.Skoða hostel, það virðist ekki vera mikið um þau hér og flest lokuð á sumrin. Þó séns með tvö. Fyrir utan að það er eitt hótel hérna nærri því á hostelverði. Áströlsku stelpurnar eru líka í lestinni. Við förum saman að leyta að hosteli þegar til Ljubljana kemur. Ákveðum að finna fyrst hraðbanka. Eftir að hafa fullvissað okkur um að það er engin slíkur í lestarstöðinni ákveð ég að spyrja næsta mann sem ég mæti. Ég er líka farinn að sjá eftir því um leið og ég sleppi orðinu.
Hann er hamingjusamur, það er ekki það. Ég: „Sorry, do you know if there is any autobank close by?” Fyrsti maðurinn sem við hittum í Slóveníu: „Yes, I’ts there, that direction (hin áttin). Look, I’ll show you, I’ll go with you.” Kímir. „I’m so happy.” Alicia: „Why are you happy?” Fyrsti maðurinn sem við hittum í Slóveníu: „Because I’m happy!” Stórt glott, sveiflar flösku. Hann er að drekka af því það eru áramót. Hjá honum. Hann hefur auðvitað ekki hugmynd um hvar hraðbanki er, ratar svona álíka mikið og við. Ég held eiginlega að hann hafi ekkert vitað alveg hvar hann var. En hann var hamingjusamur og það er auðvitað það sem gildir.
Við finnum loks hraðbanka eftir að hafa spurt öllu gæfulegri Slóvena, og svo annan – og annan. En þeir virðast allir eingöngu vera fyrir eitthvað sérslóvenskt sérviskukort. Visa? Nei, þeir eru með frumsamdar vísur. Þó finnum við loksins einn hraðbanka sem vill ræða við okkur, fáum okkur svo pizzusneiðar að ósk þeirra sem voru ekki jafn snjallir og ég að belgja sig út síðastu klukkutímann í Búdapest og förum að leita hostels.
Það eru allir frábærlega næs hérna. Við erum stoppuð og spurð af hverju við erum að leita – ekki öfugt. Við erum hvorki afætur né tækifæri til að græða í þeirra augum, hvað þá ókunnugt fólk til þess að skipta sér ekki af – og það er notaleg tilbreyting. Enda heitir borgin Ástkær, einn stafur til eða frá. Hostelið sem er næst miðbænum, Dijaški Dom Tabor, er kannski lokað á sumrin, Einmana pláneturnar okkar eru frekar óljósar með það. En Slóvenarnir halda að það sé opið. Eftir að hafa labbað einhvern hring þá finnum við hostelið sem við vorum að leita að, lokað. Rétt hjá er hótel, Park Hotel, sem við tékkum á. Það er 6000 tolarar á manninn, hótelvörðurinn fullyrðir að það sé það ódýrasta sem fæst. Ég trúi honum ekki. Þær áströlsku ákveða að taka það, ég ákveð að leita áfram. Söknuður og léttir, ágætt að hafa einhverja með sér að flakka kannski en ég var orðinn þreyttur á þeim áströlsku. Sumt fólk er ágætt í hófi.
Super Li Bellueve ætti að vera á 3000 tolara og svo er eitt hostel sem ætti örugglega að vera opið. Slóvenskur karlskröggur sem talar enga ensku stoppar mig og reynir að leiðbeina mér, bendir í öfuga átt við kortið. Ég laumast til þess að fara eftir kortinu eftir að hafa kvatt hann með virktum. Kem aftur að brautarstöðinni og þykist vita hvert á að fara þaðan en það er farið að síga í bakið, ágætis labb með stóran bakpoka. Þannig að ég næ mér í taxa og fer í hótelleit, spyr fyrst um verð og hvort hann viti um eitthvað hostel. 2000 tolarar bíllinn og hostelið 3-4000. Það er þokkalegt, tvær nætur og þá er ég að græða. En hótelið sem hann kannaðist við er lokað. Líka Super Li Bellueve – þó það sé mikið stuð á diskóinu fyrir neðan. Kannski væri ágætt að hafa nýlegri túristabók en hún hefur nú samt fullkomlega dugað mér hingað til. Endum svo á Dijaški Dom Bežigrad sem er opið en virðist hafa breyst í hótel. Hvað um það, það er örlitlu ódýrara en Park hótelið. Að vísu dáltið lengra í bæinn og allt það, en ég vil fyrir alla muni stoppa meterinn á taxanum og ákveð að crasha þarna. Græddi ég eitthvað á þrjóskunni? Nei, eða öllu heldur, ég eyddi í sparnað. Aldrei taka mark á auglýsingunum krakkar. Svo er miklu skemmtilegri hótelvörður hér heldur en fýlupúkinn á Park, vel að merkja eini fýlupúkinn sem ég hef hitt í landinu. Það eru allir einstaklega almennilegir hérna, verst hvað þeir eru latir við að halda hótelunum sínum opnum!

salome dancing on my wall
and the shadows on the floor
look so warm from here
I've seen it all before
just one little lie
but the difference is this
it meant the world to me
don't ask me no questions


Ég er djúpt sokkinn í að upphugsa mögulegar réttlætingar á þrjósku minni sem kostaði 3200 tolara (þúsundkall íslenskur en athuga skal að það er morðfé á A-Evrópskan standard) og aumt bak. Tek svo eftir sjónvarpinu og athuga hvort það geti ekki huggað mig. Og hvað haldiði, guði sé lof fyrir fámennar þjóðir, þær nenna ekki að döbba þannig að ég skil eitthvað hvað er að gerast í kassanum í fyrsta skipti síðan ég yfirgaf klakann. Jafnvel þessi auma Woody Allen-mynd skemmir ekki gleði mína yfir sjónvarpi á ensku. Líka gaman að því að Julia Roberts sé Tintoretto-sérfræðingur. Það er ég líka. Svona í samanburði við aðra listmálara að minnsta kosti þar sem mynd eftir hann er sú eina sem ég hef nokkurn tímann klambrað saman ritgerð um, listasaga hjá Róberti í MA. Mig minnir að það hafi verið allt um jónískar súlur. En hvað um það, fljótlega kemst ég að því að Slóvenar eru snillingar í gerð tónlistarmyndbanda. Ég gerist grænmeti í tvær klukkustundir, fer svo að sofa og sef vel og lengi.

"take the wheel" she said "as I wander"
we could leave this town
I've got all I need: spirit, hope and joe
but no one knows me


Ég fer út, vona að ég rati niðrí miðbæ, ég er nefnilega kominn út úr korti. Það er að segja kortinu sem ég er með, það nær bara yfir miðbæ Ljubljana. Finn svo vegavísa. Einn bendir á miðbæinn. Annar á World Trade Center. Hananú? Ég hélt það hefði verið í New York. Já, við höfum öll verið blekkt. 11 september var sviðsettur í Slóveníu, minnir einmitt töluvert á handverk eins tónlistarmyndandaleikstjórans hvers hæfileikum ég hafði dáðst af kvöldið áður. En ég rölti inní miðbæ, það er jólalegt um að litast. Búdapest og Prag komast ekki með tærnar þar sem Ljubljana hefur hælana í jólagleðinni, jafnvel skreytingagleði Akureyringa fölnar. Þríbreyða brúin er falleg, ómögulegt að ná góðri mynd af henni samt, það tekst á Drekabrúnni enda drekar fyrirtaks fyrirsætur. Svo gerist ég sérstaklega jólalegur og fæ mér kalkún. Skola honum niður með Union-bjórnum slóvenska sem svo sannarlega kemst í herramannadeildina áðurnefndu hjá mér. Fer svo og skoða sölubásana sem eru meðfram árbökkunum. Finn kerti og kaupi súkkulaðihúðað epli. Algjör snilldaruppfinning, minnir helst á kleinuhring. Fer á Þreföldu brúnna, flautuleikarinn frá Hameln lék sitt lag og snérist í hringi. Fínt sándtrakk þannig að ég kveiki á kerti fyrir pabba og hringi í gamla manninn sem varð árinu eldri í ár. Borða súkkulaðihúðaða eplið mitt á meðan ég heyri nýjustu fréttir af klakanum. Finn svo netkaffi, kíki inná sporvagn sem notuð er fyrir minjagripaverslun núna, þeir eru hættir að nota sporvagna. Kaupi nokkur póstkort, jólakortin koma á milli jóla og nýárs þetta árið. Þvælist svo áfram þangað til ég huga að heimferð, hótelið bíður. Það er helst að sjónvarpinu að frétta að það er eitthvað FIFA-gala í gangi og kona syngur á ítölsku með þessu einkennilega viðlagi: „Com’n Nicolas Cage in Leaving Las Vegas.” Hananú enn og aftur.

I think I lost my pills
guess I'll take my chances
I'm looking at the telephone
but nothing happens
I am well aware
that the morning is near
put that radio down
don't ask me no questions


Síðasti dagurinn í Ljubljana er runninn upp. Ég er svo heppin að í kæruleysi mínu missi ég af lestinni. Þá hef ég tíma til að kaupa jólagjafir handa liðinu í Sölden. Og að taka myndir og skrifa á póstkortin. Líf mitt færi náttúrulega í eintóma vitleysu ef ég næði einhverntímann þessum lestum! Kaupi spítustrák og spítustelpu handa Aleksandar og Söru, Bangsavín handa Drífu og Zoran. Hvernig vín veit ég ekki en bangsaflaskan er æðisleg, það er það sem gildir. En það er að styttast tíminn minn í Slóveníu og útlit fyrir að ég hitti hvorugan Slóvenan minn. Hvorki Natalije sem var heiðurspólverji ásamt mér í Prag né Sasja sem sá um að skemmta mér í Berlín fyrir hönd Julie. Ég hjólaði á hjólinu hans í neðanjarðarlestarstöð seint á nóttu fyrir þrjátíuogeitthvað tunglum síðan. Það á maður víst ekki að gera. Ég mæli samt með því, að minnsta kosti þangað til það fer að heyrast eitthvað í kallkerfinu. Jamm, alltof margar eyður í adressubókinni minni. Svona er lífið, manni hefnist fyrir að húka ekki heima hjá sér – og vita oft ekki að maður sé að hitta fólk í síðasta sinn. En Ljubljana heillaði mig. Það gerðist ekkert þar samt, þegar maður þvælist svona einn þá snýst það mikið um heppni. Það gerist líka frekar eitthvað ef maður kemst á hostel. Fallegur staður og almennilegasta fólk sem ég hef hitt í öllu mínu flakki. Lítil og mjög falleg, Prag mínus túristar, ljósari, Prag er dökkbrún en Ljubljana ljósbrún, minnti smá á Kraká. Ætti ég að rifja Kraká upp fyrir ykkur? Sjáum til hvort ég treysti mér þangað, ef ekki er það Týrólaalparnir næst. Það er merkilega gaman að nota þetta blogg sem svona löngueftirádagbók. Þetta var helst í fréttum síðasta mánaðar …

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home