Nóbelsverðlaunin? Átti ekki fyrir löngu að vera búið að afhenda þau? Hugsa ég þar sem ég stend og bíð eftir lestini frá Želechovice til Otrokovice. Ég hef ekki hugmynd af hverju þessu skýtur upp í kollinn á mér núna en ég sendi mömmu sms þar sem ég veit ekki hvenær ég kemst á netið sjálfur næst. Af einhverjum ástæðum er mér skyndilega mikið í mun að vita þetta.
“there’s no poetry between us”
said the paper to the pen
Fyrsti snjórinn er orðinn þriggja daga gamall. Það er krakki á hjóli í sjálfsmorðshugleiðingum. Sömuleiðis gömul kona sem fer þó ólíkt varlegar. En ég hef aldrei séð neinn á hjóli hérna. Fyrr en núna allt í einu. Ætli þau taki hjólin ekki út fyrr en þau sjá snjó?
Lestin kemur loks, of sein og þegar ég kem til Otrokovice þá borða ég einhvern dularfullan mat í svona um það bil þrem munnbitum, það er ekki langt í lestina til Breclav. Þangað kem ég, nógur tími enda búinn að missa af lestinni sem ég ætlaði að taka til Búdapest. Það er alltaf lestin á undan sem er of sein. Breclav virðist vera skondinn staður, en ég fer ekki of langt af ótta við að finna ekki lestarstöðina tímanlega. Lestin kemur, við erum þrjú í klefa – þar af einn sofandi. Ég og stelpan í gluggasætinu á móti erum hvorug syfjuð en bæði of tillittssöm til að kveikja ljósið.
Það er skondið að ferðast með farsíma með lest. Landamæraverðirnir koma til þín á næstu stöð á undan eða næstu stöð á eftir landamærunum, lítið á þeim að græða. En þegar farsíminn þinn pípir til að gefa til kynna nýtt farsímafyrirtæki veistu að þú ert kominn á nýja grund. Slóvakíska farsímafyrirtækið talar meira að segja íslensku, eðlilega stoppa ég ekkert þar. En þetta verður væntanlega ferðasaga þumalputtakynslóðarinnar; ég fór frá Eurotel til Orange, eyddi jólunum í A. Max og snéri svo aftur til Eurotel. Eða Paegas. Flest lönd bera fleira en eitt nafn. Tékkland, Tékkía og einu sinni Tékkóslóvakía.
Mamma svarar loks – eða pabbi? Þau eru með sameiginlegan farsíma, mamma er skráð fyrir honum í adressubókinni minni sem upphaflegur eigandi en pabbi notar hann meira núorðið. Þannig að ég er alveg hættur að þekkja á milli foreldra minna. Allavega, Imre Kertesz vann nóbelinn. Hver það er hef ég ekki hugmynd um en hann býr víst í Búdapest. Forlagatrúin sprettur upp í mér. Hvað sem það nú annars var sem karluglan skrifaði þá hlýtur það að vera eitthvað sem mun breyta lífi mínu, ekki satt? En núna rennur lestin í fletið sitt, hún hefur fundið svefnstað og nú er komið að mér. Yellow Submarine verður fyrir valinu, það er stutt að labba og þeir eiga laust rúm.
something’s burning in the attic
that her tongue will not defend
through the arc of conversation
past the teeth behind the smile
Ég hendi inn farangrinum, fer út og tek út forintur, finn mér eitthvað til að svala þorstanum. Kem aftur inn, ég er ekki orðinn syfjaður en klukkan er orðin margt. Best að kíkja aðeins á netið á þessari fornfálegu tölvu þeirra, fara á klósett og svo upp í koju.
Kojan hristist þegar ég klifra upp. Hún hristist líka þegar ég, eða stelpan í neðri kojunni, byltum okkur. Kínverjinn á móti mér hrýtur. Ég þarf að fara fáránlega oft á klósettið. Alltaf næ ég bara nokkrum dropum og þarf því fljótlega aftur. Stelpan í kojunni á vinstri hönd vaknar reglulega, sest upp, ringluð og spyr hvað klukkan sé. What time is it? Ég reyni að hvísla. Hún heyrir ekki í mér. Ég hvísla hærra. Hvenær hættir maður að hvísla? Kínverjinn heldur áfram að hrjóta. Fer á klóstið, hrýtur aðeins meir. Ég og kojunautur minn hristum hvort annað reglulega. Ég get ekki sofið og er reglulega spurður hvað klukkan sé. Djöfull var maður farinn að sakna þess að gista á Hosteli!
could we go downtown
to the middle of the world?
Mitt á milli Búda og Pest. Dóná svo blá. Keðjubrúin. Um daginn þvælist ég um Pest. Kemst að því að Imre Kertesz samdi skáldsögur – ævisögulegar – um helförina. Ja, ekki ætlar hugljómunin að verða uppörvandi. En svo kemst ég að því að það eru bara tvær bækur eftir hann til á ensku. Önnur heitir Fateless, eitt af þrem uppáhaldsorðunum mínum í ensku, þökk sé Vladimir Holan. En þýðingarnar eru vondar, það á að koma nýjar og betri þýðingar á þessum tveim bókum á næsta ári. Hugljómun er hér með frestað um óákveðin tíma.
Upphaflega ástæðan fyrir því að listamenn sóttu kaffihús var kuldi. Það er einmitt ástæðan fyrir því að ég kíkti inná Múvész, það er skítakuldi í Búdapest. Hananú, búinn að sanna að ég sé listamaður með útsmoginni aðferðafræði, það er gott því það tekur svo langan tíma að skapa ódauðleg listaverk, sérstaklega að sanna ódauðleikann. En þetta er fallegt kaffihús og fólkið hérna virðist ekta, það er fyrir öllu. Hverjir eru hérna? Jú, einn minnir mig á og Franz Liszt (hef ekki hugmynd um hvernig Franz Liszt leit út en svona leit hann út í hausnum á mér), ein eins og Michelle Pfeiffer þegar hún var ennþá með attitjúd og ein er einhversstaðar mitt á milli Bodil og Elsu í effinu. Það eru vissulega meðmæli. Ég skoða matseðilinn, kemst að því að bjór heitir sörök á ungversku, eða sör. Sör Dreher I presume? Jamm, um kvöldið þá fékk ég mér bæði Sör Dreher og Sör Azzuro (eða Nastro eins og ég kalla hann), tvo af uppáhaldsherramönnunum mínum. Kannski ástæða til að kynna ykkur fyrir minni persónulegu League of Extraordinary Gentleman; Sör Dreher hinn ungverski, ítalski sjarmörinn Sör Nastro Azzuro, Tékknesku sjentilmennin Sör Gambrinus, Sör Radegast, Sör Staropramen, Sör Krusovice og Hollenskur herramaður sem ég kynntist í París en náði ekki nafninu á. Og enn á ég þegar hér er komið sögu eftir að hitta Sör Union.
Prag og Búdapest. Prag er fallegri utanhúss, Búdapest fallegri innanhúss. McDonalds og Burger King í Búdapest eru í höllum. Prag er ævintýraborg, Búdapest ber vott um heimsveldi sem eitt sinn var. Búdapest er epík og Prag er ljóð. Samt eru þær á einhvern hátt eins. Ég hugsa þetta um leið og ég fer yfir Keðjubrúna, upp að Kastalahæð, upp í Búda. Ég fer upp með kláfnum, Budavári Sikló, hleyp aftur niður. Labba aftur upp. Þetta minnir mig á stígin neðan við Spítalavegin. Ég þvælist aðeins um Kastalahæð, leita að matsölustað en þetta eru allt okurbúllur. Enda allir staðirnir tómir, nema einn, þar er spennandi matseðill á eðlilegu verði – og auðvitað öll borð upptekin. Ég fer aftur niðrí Pest, borða eitthvað skítsæmilegt pasta og fer upp á hostel þar sem ég enda á að fara út með tveim Áströlskum stelpum, einum Nýsjálenskum og tveim hollenskum strákum. Ég prófa einn Unicum, jamm, it’s an aquired taste. Framan af var þetta fínt en snérist svo upp í hollensk-ástralska sápuóperu. Og þær áströlsku voru farnar að fara nett í taugarnar á mér, Patrick hinum nýsjálenska höfðum við aftur á móti týnt. Áströlsku stelpurnar tvær, Jackie og Alicia, voru líka að fara til Ljubljana um morgunin. Okkur tókst öllum þremur að sofa yfir okkur. Ég var samt heppnari, þær rétt mistu af lestinni, þegar ég vaknaði um níuleitið þá vissi ég að hún væri þegar farin og gat því farið í sturtu og fengið mér morgunmat í mesta næði. Seinni lestin færi ekki fyrr en um þrjúleitið. En það var ágætt að missa af lestinni, annars hefði ég aldrei hitt Kanadann.
"there's no poetry between us"
said the paper to the pen
"and I get nothing for my trouble
but the ink beneath my skin"
Ég er nýkominn úr sturtu. Varla vaknaður. Ég sit við morgunverðarborðið og Patrick er við hliðina á mér. Hann hafði endað á einhverjum írskum pöbb nóttina áður. Á móti okkur er ekki ólagleg bandarísk stelpa öðrum megin, hinum megin er Kanadi sem er ekki ósvipaður Aragorn í LOTR. Hann segir okkur frá því þegar hann ferðaðist um Afríku, þar sem maðurinn er uppruninn. Þegar hann fékk sníkjudýr í lappirnar, undir húðina (don’t flyfish in Africa) og skar burt orm sem hafði aðsetur í bakinu á honum. Sníkjudýrin voru erfiðari. Hann reyndi að brenna þau í burtu. Skottulækna og töfralækna þar til einhver dularfull pilla tók ár af lífi hans og fældi sníkjudýrin í burt. Survivor my ass. Hann er atvinnumaður, við hin erum öll amatörar. Ég hefði viljað þvælast með honum í vikur, heyra fleiri sögur, læra. Hann heldur ferðadagbók og ef hún er jafn vel skrifuð og hann segir frá þá ætla ég að vona að hún komi einhverntímann á prent. Já, stundum hittir maður stórkostlegt fólk – en það er oftast á leiðinni í hina áttina. Áströlsku ljóskurnar eru aftur á móti á leiðinni til Ljubljana.
Sé smá bút úr Star Trek í hostelsjónvarpinu. Það meikar ólíkt meiri sens á ungversku. Geimverurnar eru nefnilega merkilega sannfærandi þegar þær tala gjörsamlega óskiljanlegt tungumál. Maður tekur miklu minna eftir því hvað meiköppið er fáránlega lélegt og hversu fáránlegar samræðurnar eru. Svo á lestarstöðina. Kaupi miða, set dótið í geymslu og leita mér ætis.
you were always such a pretty girl
and you told me I was beautiful
Enda á Donna Bella Pizzeria. Veit ekki hvort hún var Donna en hún var sannarlega Bella. Og hún brosti alltaf sérstaklega til mín þegar hún gekk fram hjá, auli ég að vera að fara til Ljubljana eftir klukkutíma. Hún er dökkhærð, minnir mig á M. Ég borða og borga, fer inná lestarstöð og leita að stöðum til að klára klinkið mitt. Stelpan sem selur mér kók á minnir mig líka á M. – ég sendi henni skilaboð hvort hún hafi hugsanlega fæðst í Deli lestarstöðinni í Búdapest. En lestin bíður ekki lengur. Ég hef klefan út af fyrir mig, sef hálfa leiðina.
if your clothes are getting weary
and your soul's gone out of style
blame the miracle mile
and the bottom of the ladder
paint your eyes and hide the tatters
what's the matter baby?
. . . I'm coming too.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home