Bókahorn Gambrans
Já, bókahornið er í stuði þessa dagana enda ekki seinna vænna að afgreiða fyrirjólalestur áður en jólabækurnar verða teknar upp þann tuttugastaogfjórða. Næst var A Star Called Henry, sem þýdd var á íslensku undir nafninu Ég heiti Henry Smart. Ég las ensku útgáfuna og get því ekki sett út á annað en nafnið – en það verð ég að gera af því þar þykir mér þýðandinn taka sér óeðlilega mikið skáldaleyfi. Jú, þessi setning á sér vissulega sinn stað í sögunni en þú gjörbreytir áherslunum í sögunni með því að kjósa þennan titil frekar en Stjarna nefnd Henry eða eitthvað í þá áttina. Jú, það var líklega óþjálla á íslensku – en hins vegar missir nafnið öll þau tengsl sem það hefur við dauðann og sögu Írlands sem enski titillinn hefur. Ekkert toppar þó enska titilinn á Der Himmel Über Berlin, Wings of Desire sem er sú glæpsamlegasta þýðing sem gerð hefur verið. Þó neyðist maður til þess að taka sér það í munn ef maður vill spyrja um myndina á íslenskri myndbandaleigu. Hnuss og aftur hnuss segi ég nú bara til þess að vera nú málefnalegur!
En nóg af misgáfuðum þýðendum og aftur að bókinni. Hún er að mörgu leiti írska útgáfan af Midnight’s Children, gjörólík upp að vissu marki en sá munur skýrist eiginlega fyrst og fremst á þeim mun sem er óneitanlega á Írum og Indverjum. Það eru meiri læti í Miðnæturbörnunum, Henry er rólegri þrátt fyrir öll morðin og eltingarleikina. Sagan gerist fyrstu tvo áratugi síðustu aldar (mér finnst ennþá jafn skrítið að tala um tuttugustu öldina sem síðustu öld), á það sameiginlegt Miðnæturbörnunum að greina fyrst frá forfeðurunum áður en hann kemur í heiminn en lætur sér þó að mestu duga að greina frá tilhugalífi foreldra hans þó lítillega sé máluð mynd af bakgrunni ömmunnar, þannig að Henry sjálfur fæðist ólíkt fyrr í bókinni heldur en Saleem Sinai. Lyktin skiptir miklu máli hér líkt og í Miðnæturbörnunum, lyktin af skítugum og blóðugum frakka föður Henrys, leigumorðingjans, er eins og hálfgert leiðarstef seinna meir í baráttu hans í blóðidrifinni frelsisbaráttu Íra – og fær mann þannig til þess að spyrja sig, hver er munurinn? Annað er fyrir ríkan og spilltan ósýnilegan yfirmann, hitt fyrir meint frelsi þjóðarinnar – en lyktin er sú sama. Og fleira en það er líkt. Kynlífslýsingarnar hefur hún framyfir Rushdie, Rushdie hefur kannski fullgaman af því að gera þær gróteskar – í Henry eru þær oft skondnar, en um leið einkennilega fallegar líka. Baráttuaðferðir írska lýðveldishersins gagnvart ofurefli eru líka merkilega svipaðar og hjá landa þeirra O’Sullivan í Road to Perdition (teiknisögunni – ég er í bíósvelti hérna og veit ekki hvort sömu aðferðir eru notaðar þar).
Eitt er mikið talað um í umfjöllun um bókina, það er að hún sé algerlega órómantískt sýn á frelsisstríð Íra. Það er vissulega kjaftæði skrifað af fólki sem hefur ekki hundsvit hvað felst í orðinu rómantík. Svonefnd þjóðernisrómantík sem er skrifuð af hæfileikalausum áróðursfulltrúum þar sem öll jákvæð gildi eru hafin lengst upp til skýjanna er áróður og hefur ekkert með skáldskap eða rómantík að gera. Það að þykja vænt um eitthvað, hvort sem það eru lifandi hlutir eða dauðir, það er rómantík. Það getur verið konan þín, það getur líka verið lykt á pabba þínum sem táknar dauða. Það að þykja vænt um fólkið sitt eins og það er – og eins og það var – það er rómantík. Doyle þykir vænt um samlanda sína af því hann veit hvernig þeir eru – honum þykir aftur á móti lítið vænt um lygar, þær hugmyndir sem siðapostular og falsspámenn hafa um það hvernig Írar eigi að vera.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home