mánudagur, desember 16, 2002

Setið á Karlsbrúnni

Sitjandi á Karlsbrúnni, ég er eins og stytturnar hérna. Fyrir ofan mannlífið, einsamall og eins og ég hafi verið hérna frá örófi alda þó ég hafi bara komið hingað fyrir fimm mínútum. Lít á mannfólkið og velti fyrir mér; Hvert er þessi að fara? Hvaðan kemur hann? Er hann að hugsa eitthvað háleitt eða er hann bara í túristaleik eða á hann kannski heima hérna rétt hjá? Kannski einhver einkennileg blanda af öllu þrennu. Það var verið að biðja mig um tvær krónur. Ég er hálf svekktur, ég var að vona að einhver gæfi mér pening. Var að vona að ég væri passlega betlaralegur. En nei, ég sit fyrir ofan fólkið, maður á að sitja fyrir neðan það ef maður vill fá pening.Þannig ég er örlátur andi brúnnar sem gef þurfandi með mér af alsnægtum mínum, fer svo seinna heim og borga skuldir.
Tilhugsunin um að fyrir stuttu hafi húsin sem umkringja brúnna farið á kaf og íbúarnir verði margir ansi lengi að borga brúsann stoppar mig sem betur fer frá því að vorkenna sjálfum mér, Íslendingi með visakort í útlöndum. Það er þó merkilegt hversu lítil ummerki sjást orðið um flóðin hér. Helst ef maður fer nógu langt frá helstu ferðamannagötunum í miðbænum að maður rekist á götur í molum og einstaka húsarústir. Skoðaði einmitt afar áhugaverða ljósmyndasýningu í listasafninu Manes (sem er einmitt að stóru leiti út í ánni) um flóðin.
Myndirnar eru mun áhrifameiri og betri en nokkuð sem maður hafði séð í blöðunum heima og á innlendum og erlendum fréttavefjum. Sniðmyndir af Vltava-ánni fyrir og eftir, óteljandi sandpokar og drulla út um allt. Brúnleitt vatnið umkringir hús, slökkviliðsmenn berjast við að bjarga gömlu fólki og hundvotum köttum, fólk ferðast um borgina í gúmmíbátum, vélbátum og einstaka pallbílum. Húsarústir blasa við sem og varnargarðar. Kvenstytta á einni brúnni ber hendi við brjáluðum vatnsflaumnum á meðan hvítklædd kona, berfætt, er innikróuð inní hliðargötu. Röð báta róa frá hringekju sem er hálf í kafi, ónýtir járnbrautarteinar sökkva í jörðu og fólk reynir að bjarga verðmætum. Ónýtur, og hugsanlega eitraður, matur er fjarlægður af björgunarmönnum klæddum hlífðarfatnaði og gasgrímum. Vörur verslana liggja á götunum eins og hráviði á meðan fiskur spriklar í skóflu stutt frá Þjóðleikhúsinu. Maður á kajak rær fram hjá metrostöðinni Florence, það er lokað. Einnig eru myndir frá eldri flóðum, á einni er mestöll Karlsbrúin þakin rekaviði, væntanlega leifar annarar brúar úr veikara efni. Besta myndin er þó af ungum dreng sem lítur á okkur úr aftursætisglugga bifreiðar sem hefur stoppað rétt áður en vegurinn breytist í fljót. Svipur hans er örvæntingarfullur, enda virðist hamlaust vatnið fossa í áttina að bílnum – rétt fyrir framan þá er ekki hægt að sjá betur en að önd nokkur sé að stjórna umferðinni, fullkomlega yfirveguð í öllu brjálæðinu.
Allt þetta brjálæði hefur þó ekki stoppað Íslendinga í að heimsækja borgina. Aldamótaveturinn sem ég var hér til náms heyrði ég ókunnugar raddir tala íslensku þrisvar sinnum yfir allan veturinn. Það er líklega dagsskamturinn núorðið – og er þá ótalin helgin þegar starfsmannahópur gamals vinnustaðar var hér mér til ómældrar ánægju. En það er í miðbænum. Úthverfi eins og Holesovice eða gamla hverfið mitt í Žižkov sem ég heimsótti eitt kvöldið, gripinn skyndilegri gamalli heimþrá. Nostalgíu eftir dansandi Slóvökum, Pakistönskum barþjónum, ísjakahlaupi til að forðast hundaskít, trúðnum og skáldinu, hinni einu sönnu Borijova-götu, tegötunni minni, sjónvarpsturninum … og Palac Akropolis. Dró tvo Íslendinga og einhvern hrekklausan Ísraela í þetta vafasama mekka Pragverskrar jaðarmenningar. Eftir skamma stund þá var mig eiginlega farið að langa heim í bælið - en bölvuð ábyrgðartilfinningin er alltaf söm við sig hversu skakkur sem ég verð þannig að ég bíð eftir að þremenningarnir séu búinn að dansa nægju sína. Enda ekki alveg staðurinn til að skilja grunlausa græningja eftir í Prag. Eignast góðan vin meðan ég bíð, góðan mann úr Jesseníkí-fjöllunum sem er mjög glaður að heyra að ég hafi eitt þremur ljúfum dögum á þeim slóðum.
Undir morgun var svo loks kominn tími á heimferð, ég uppfyllti loforð við mann sem ég kann ekki að nefna og skilaði þríeykinu heim, þvínæst skilaði ég sjálfum mér heim þó engu hafi verið lofað þar um.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home