Það er búið að vera heilmikið í umræðunni hvort þetta bloggsamfélag sé orðinn eins og versti gagnfræðaskóli, einelti og slúðursögur upp um alla ganga. Það er svo sem ekki við öðru að búast að einelti og slúðursögur rati hingað inn eins og aðrir þættir mannlegs samfélags – þó er ein ansi mikilvæg breyting frá því sem var á skólalóðinni. Það er í raun auðveldara að svara fyrir sig. Sjáum þetta fyrir okkur; einhver segir eitthvað við þig sem svíður, hvort sem um er að ræða slúðursögu eða móðgun, satt eða logið, ef þetta væri á skólalóðinni eða einhversstaðar annars staðar í kjötheimum þá mundirðu væntanlega sjá rautt og muldra eitthvað í reiði þinni – en það væri svo ekki fyrr en þegar mesta reiðin er runnninn sem þér vitrast hið fullkomna kommbakk – en þá er náttúrulega allt yfirstaðið og möguleikinn á uppreisn ærunnar úr greipum runninn. Þannig er þetta aftur á móti ekki í rafheimum, þú getur íhugað heillengi hverju þú svarar og engin sér hvort þú ert eldrauður í framan eða pollrólegur fyrir framan tölvuna. Í rauninni eru fórnarlömb slúðursagna eða eineltis í mun betri aðstöðu hérna en venjulega. Svo framarlega sem þau halda úti eigin síðu það er að segja, enda er aumt að skjóta á þá sem hafa ekki vettvang til málsvarnar.
p.s.: Þetta er almenn hugleiðing um þessi mál en ekki afstaða í neinni af þeim deilum sem hafa geisað – enda erfitt að taka afstöðu þegar að það er búið að ritskoða stóran hluta deiluefnanna eins og virðist vera að færast í vöxt.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home