Ég er ekki að segja að hvíti karlinn hafi það slæmt - en það sem þó hrjáir hann er að miklu leiti komið til út af því að hann undirokar aðra hópa og þess vegna ætti hann að berjast gegn ójafnrétti eins og aðrir. Það að undiroka aðra er ekki lykillinn af hamingjunni.
Ég sló þann varnagla að ég hafi örugglega ekki gert nóg á móti ýmiskonar óréttlæti þó ég hafi ekki staðið fyrir sjálfur – það er efni í annan langan pistil en passaði ekki í þennan – enda nógu langur fyrir.
Ég er hins vegar almennt ekkert sérstaklega hrifin af öfgaróttækni í pólitík – hún getur verið rómantísk og virkað í einhvern smátíma en á endanum gerist annað tveggja: þú nærð völdum og verður jafn slæmur eða verri en sá sem fyrir er – eða, sem er mun algengara, þú færð þá uppá móti þér sem voru ekki endilega á móti þér áður. Það er eitthvað furðulegt tískufyrirbrigði að halda því fram að ef þú færð sterk neikvæð viðbrögð þá sértu að gera eitthvað rétt. Kannski ef það er frá ákveðnum ómerkilegum aðilum – en viðbrögðin, hvort sem þau eru jákvæð, neikvæð eða engin segja merkilega lítið um hvort þú sért að gera rétt eða ekki. Frekar hvort þú hafir verið réttur / rangur maður á réttum / röngum tíma.
Jú, Kaninn hefur ýmislegt á samviskunni en eitthvað af ástandinu er samt alfarið sök Íslendinga sjálfra.
Og pólitíkin? Ég tek fram að með kommúnisma þá á ég ekki við VG eða Samfylkinguna – með kommúnisma á ég við þessa hreinu stefnu sem Karl Marx skrifaði endanlega upp á og var upphafspunkturinn sem Sovétmenn og fleiri byggðu á áður en þeir afskræmdu það. En héldu sig samt að einhverju leiti í Austur-Evrópu við þessa hreinu vinstristefnu, allir eru jafnir og eiga að fá það sama í hendurnar. Það var þetta hreina kerfi sem virkar ekki, hvort sem það er vinstri eða hægri. Ég skrifa hiklaust undir það að allir eigi að fá sömu tækifæri óháð kyni, þjóðerni eða ætterni – en þar sem skilur að er hvernig þeir spila svo úr sínum tækifærum. Og leikreglurnar þurfa að vera sanngjarnar.
Hins vegar finnst mér ekki hafa komið nógu skýrt fram hjá íslenskum vinstri mönnum að þeir aðhyllist ekki algert jafnræði, manni sýnist það en það er lítið um garantí – það er eins og flestir flokkarnir séu að nálgast miðjuna án þess í raun að hvika frá gömlu kreddunum sem skapar oft mistrúanlega flokka. Miðjan í íslenskum stjórnmálum er svo kapítuli út af fyrir sig – út af því hún er í raun ekki til sem slík. Alvöru miðjustefna, sem byggir á ákveðnu common sense í því hvort velji skuli hægri eða vinstri, ríkisafskipti eða einkarekstur etc. hefur ekki átt upp á pallborðið heldur eingöngu hentistefna Framsóknar og popúlismi Samfylkingar.
Ég ætla ekki að skilgreina sérstaklega hvað “glæpamaður” er – það sem ég var að tala um var að þetta hreina kommúnismakerfi – og raunar líka hreinn kapítalismi – gerir lítið til að hvetja fólk til að forðast það að fremja glæpi. Og að hægri fólk sé fljótara með fordómana og refsingarnar? Já, það gæti alveg passað núna – en síður fyrir einhverjum áratugum. Vinstri stjórnir í Rússlandi og Kína voru ansi snöggar upp á lagið að refsa og fordæma – en það var út af þessari ofboðslegu sannfæringu um þjóðskipulagið sem ekki mátti gagnrýna – svo 89 “vinnur” kapítalisminn sigur – unnin á sjálfsmarki. Eða: sigur sem þeir eignuðu sér þegar hinir hrundu og hafa því miður fallið í ískyggilega svipað far og gamlar einræðisstjórnir kommúnismans, sérstaklega eftir að George W tók við og Sjálfstæðisflokkurinn var búin að vera aðeins of lengi við völd. Þeir voru allt of sannfæriðir um að þeirra þjóðfélagshugmyndir væru þær réttu. Fólk sem efast ekki er hættulegt.
Ég efast ekki (svona í framh. af síðustu setningu!) um að þú hafir lent í að vera settur í staðalmynd af hægri mönnum – hægri og vinstri menn eru snöggir að búa til klisjur um hvora aðra – en það sem fer einmitt í taugarnar á mér ef þú slysast í hóp fólks úr innsta hring flokka (skiptir ekki máli hvaða flokk) þá er alltof algengt að allir í hinum flokkunum séu útmálaðir sem hálfvitar eða skúrkar. Kannski einum hrósað til að halda trúverðugleikanum. Ég á vini eða kunningja í öllum flokkum og þeir eru venjulega ágætir þegar þeir missa sig ekki í pólitíkina – eins og ég er auðvitað að gera núna!
Ég er hins vegar ekki sammála því að hægri stefna sé ekkert annað en íhaldsemi og græðgi – græðgina má uppfæra á kapítalismann, hreina kerfið sem allt étur hvort sem það er til vinstri eða hægri. En íhaldsemi? Mér hefur alltaf fundist notkun þess orðs í pólitík út í hött. Flokkarnir eru allir jafn íhaldssamir, bara á mismunandi sviðum. Einkavæðing skóla, slæm hugmynd sem Sjálfstæðismenn einir hafa haldið á lofti, getur þó varla talist íhaldssöm skoðun því það mundi þýða breytingar á því skólakerfi sem verið hefur við líði hér um áratugi. Þarna eru vinstrimenn íhaldsamir, réttilega. Keep the good and throw out the bad! Margt sem þarf að vísu að breyta í skólakerfinu en þetta er ekki rétta skrefið.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home