miðvikudagur, mars 24, 2004

Skólagjöld

Það er loksins að færast smá líf í umræðuna um skólagjöld núna, sakna þess að vera ekki nær HÍ í augnablikinu. En ein röksemd fer mjög í taugarnar á mér og það er sú della að sumar deildir taki upp skólagjöld en ekki aðrar. Það sér það hver heilvita maður að ef heimild verður veitt til að taka upp skólagjöld við skólann þá enda allar deildirnar á því að taka þessi gjöld upp.
Þær deildir sem hafa talað með skólagjöldum af því þær vilja það, hinar deildirnar af því þær verða þvingaðar til þess. Það er augljóst að ef að t.d. viðskiptadeild er komin með skólagjöld og Heimspekideild fer að betla pening – sem Háskóladeildir þurfa því miður að eyða alltof mikilli orku í eins og ástandið er – þá á hún eftir að fá sömu svörin alls staðar: Af hverju takið þið ekki bara upp skólagjöld?

Hvað Lánasjóðinn varðar þá eru engin rök að segja bara að lánin hækki ósjálfrátt við þessa breytingu og það sé eitthvað sem þarf ekki að hafa áhyggjur af, það er fátt sem bendir til þess að LÍN fari að taka það upp hjá sjálfum sér að hækka námslánin upp úr öllu valdi. Nei, til þess að þessi röksemd haldi þá þarf að tryggja það fyrst að lánasjóðurinn taki nauðsynlegum breytingum ÁÐUR en farið er að taka ákvarðanir um skólagjöld.

Að lokum er þó rétt að taka fram að skólagjöld þurfa ekki endilega að vera að hinu illa, þetta er í flestum löndum sem við berum okkur saman við og er alls ekki alslæmt. En það merkilega er að engin fylgismanna skólagjalda sem ég hef heyrt í hefur minnst á einu raunverulegu röksemdina með þeim – þá að þau geti hugsanlega þýtt betri skóla, skóla þar sem nemendur geti gert raunverulegar kröfur á þá menntun sem þeir fá í staðinn fyrir að fyrirgefa allar brotalamir endalaust út af blankheitum Háskólans. Það að líta á kennarana sem einhverja sem þú vilt fá einhverja menntun frá, ekki einhvern fátækling sem er að reyna að ströggla í gegnum þetta á horrimini eins og þú.

En öll rökin hafa hins vegar byrjað á vitlausum enda, þeirri útópíu að vinnuveitendur eigi allt í einu eftir að fara að borga fólki himinhá laun bara af því það borgar skólagjöld. Samkvæmt því ættu til dæmis þeir sem hafa lært í Bandaríkjunum og Bretlandi að geta komið hingað og fengið himinhá laun hvert sem þeir fara bara af því þeir borguðu svo há skólagjöld. En er það að gerast – og mun það gerast af sjálfu sér ef HÍ tekur upp skólagjöld? Svarið við því er augljóslega nei.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home