föstudagur, júní 11, 2004

Frakkland - B - riðill

Frakkar eru með besta lið í heimi, svo einfalt er það. Hafa verið það í níu ár af undanskildum nokkrum vikum í Kóreu. Voru með besta liðið í EM 96 þar sem tapliðin í vítakeppni undanúrslitanna (Frakkar og Englendingar) hefðu verið verðugri úrslitaleikur en litlaus lið Þjóðverja og Tékka. Unnu HM 98 og 2000 sanngjarnt og hafa verið besta liðið á milli móta að auki. En um leið og slysið í Kóreu hvetur þá áfram þá getur það líka grafið undan sjálfstrausti ef eitthvað klikkar – menn byrja að spyrja sig hvort sagan sé að endurtaka sig – og einmitt slíkar spurningar eru kveikjan að því. En það voru ástæður fyrir því að Frakkar klikkuðu í síðustu HM, í mínum huga fyrst og fremst þrjár ástæður – aðeins einni þeirri þarf að hafa áhyggjur af núna. Sú fyrsta var einfaldlega meiðsli – tveir bestu skapandi miðjumenn Frakka, Zidane og Pires, voru meiddir og það vantaði einhvern í staðinn og einmitt þarna á vellinum sá maður mestan mun á gömlu frönsku mulningsvélinni og því taugaveiklaða liði sem sást í keppninni. Þar gerði Lemerre þó mistök með því að velja ekki bestu kostinn þá til þess að leysa þá af, Eric Carriere. Micoud var hreinlega ekki nógu góður og einn minn uppáhaldsleikmaður, Djorkaeff, því miður kominn yfir hátindinn. Þessi vandræði verða varla til staðar nú, bæði Zidane og Pires eru heilir og eins er frábær leikmaður eins og Jerome Rothen frá Monaco til taks á bekknum – Ludovic Guily félagi hans á hinum kantinum því miður meiddur. Eins eru varnarsinnaðri miðjumennirnir sterkari en fyrr, Vieira orðinn leiðtogi í liðinu og Makelele orðinn óumdeildur með honum – Pedretti og Dacourt svo mjög sterkir á bekknum. Miðjan því í raun án veikleika, 7 yfirburðamenn til taks.
Annað vandamál á HM var þráhyggja Lemerre að leika aðeins með einn framherja. Það var í raun arfleifð frá EM 96 og HM 98 þar sem helsti veikleiki Frakka var að þá vantaði almennilega sentera, Henry, Trezeguet og Anelka voru enn bara efnilegir og þeir reyndari handónýtir – senterinn sem byrjaði inná í úrslitaleik HM 98 fyrir Frakka var til dæmis einhver ónýtasti leikmaður keppninnar. En nú eru Frakkar með Henry og Trezeguet, eitthvert besta framherjapar keppninar. Að vísu er breiddin ekki alveg nóg þarna, helst að Saha geti leyst þá af hólmi en Anelka ekki í náðinni og Cisse í banni.
Markvarslan ætti varla að vera vandamál án þess þó að vera sérstakur styrkur, það skemmtilega við Fabian Barthez er nefnilega að hann gerir helst bara gloríur með Manchester United eða gegn Íslandi. Annars er hann oftast traustur. En eitt vandamál er þó enn til staðar – hjarta varnarinnar. Þó hinn vitavonlausi Lebouf sé blessunarlega farinn þá eru spurningamerki við Marcel Desailly. Einn minn uppáhaldsleikmaður síðan hann tætti Barcelona í sig í einhverju mesta bursti í sögu Meistaradeildarinnar fyrir tíu árum – en það er spurning hvort þetta sé einu stórmóti of mikið. Þeir eru með menn í stöðuna, félagi hans hjá Chelsea, William Gallas, og Mickael Silvestre eru báðir tilbúnir þó hvorugur sé sá leiðtogi sem Desailly er. Það er Lilian Thuram hins vegar og miðvörður er hans besta staða þó oftast hafi hann spilað á kantinum fyrir Frakka. Bæjarinn Willy Sagnol getur þó leyst hann af þar og fráfarndi félagi hans hjá Münchenarveldinu, Bixante Lizarazu, er sterkur á hinum kantinum.
Sem sagt, ákveðin spurningamerki í vörninni en að öðru leiti lið með heimsklassamenn í öllum stöðum, þar með talið á bekknum. Gæti þó verið tvíbennt hvernig áhrif ákvörðun Santini þjálfara að fara til Tottenham eftir mótið hefur á liðið. En þeir fara langt, líklega alla leið.

Spá: Vinna riðilinn – og mótið.

Lykilmenn: Margir leiðtogar hér, Thuram í vörninni, Vieira og Zidane á miðjunni og Henry frammi.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home