föstudagur, apríl 01, 2005

Ævintýri ósýnilega mannsins

Bara til að friða áhyggjufulla lesendur - ég er kominn aftur frá Ísafirði. Mikið rokk og algjörlega frábær hátíð, tjái mig betur um það seinna annars staðar þar sem ég er búinn að lofa pistli um það fyrir annan vettvang.

En það var eitt sem var þó sérstakt við þessa páska og það var hversu sterkir ofurmennishæfileikar mínir til þess að vera ósýnilegur voru, sérstaklega þegar ég var að panta mér einhverjar veitingar.

Ævintýri ósýnilega mannsins, fyrsti hluti:

Föstudagurinn langi. Ósýnilegi maðurinn niðrá Lækjartorg með það markmið að ná fimmuni sem fer út á flugvöll en þar bíður hans bílaleigubíll. En strætó er mínútu á undan Ósýnilega manninum og þar sem hann er ónærður fer hann að leyta sér ætis. Upphafleg áætlun er sú að láta pylsu duga en þar sem enginn sölustaður slíks fæðis er opinn þá endar Ósýnilegi maðurinn á Kebabhúsinu og bíður þar í langan tíma eftir matnum. Fyrst telur Ósýnilegi maðurinn þetta eðlilegan páskaseinleika en þegar grunsamlega margir eru að fá matinn sinn á undan honum þó hann hafi verið pantaður á eftir fer Ósýnilegi maðurinn að fá á tilfinninguna að ofurmenniskraftar hans séu hér að verki. Jú, auðvitað hafði afgreiðslustúlkan bara steingleymt borgara Ósýnilega mannsins. Sem kemur loksins en þá var Ósýnilegi maðurinn auðvitað löngu búinn að missa af strætó og þurfti að taka næsta.

Ævintýri ósýnilega mannsins, annar hluti:

Daginn eftir var Ósýnilegi maðurinn svo staddur á Langa Manga á Ísafirði. Var ekki nógu vel vaknaður og sökum gistingar á Suðureyri var hann bílandi og gat þar af leiðandi ekki fengið sér neitt sterkara en kaffi (sökum takmarkaðrar vöknunar) og kók (til að losna við kaffibragðið). Satt best að segja fannst Ósýnilega manninum það ekkert taka neitt ógurlegan tíma en Manga* virtist finnast það og gaf Ósýnilega manninum þ.a.l. bæði. Vitanlega hugsanlegt að tímaskyn mitt hafi brenglast sökum ósýnilleika. Mikill heiðursmaður Mangi og heitir Ósýnilegi maðurinn því í staðinn að koma þarna við tækifæri og fá sér stóra súkkulaðiköku. Eða bjór. Eða bæði.

*Rétt er að taka fram að Ósýnilegi maðurinn hefur engar öruggar heimildir fyrir að afgreiðslumaðurinn hafi heitið Mangi en hann var þó afskaplega Mangalegur og þetta fallega nafn því afar viðeigandi þessum góða afgreiðslumanni.

Ævintýri ósýnilega mannsins, þriðji hluti:

Síðar um kvöldið fer Ósýnilegi maðurinn á Pizza 67. Pantar ostaveislu og eftir rúman klukkutíma og ófáar ferðir til þess að spyrjast fyrir um örlög pizzunar kemur hún loksins. Ósýnilegi maðurinn þurfti sem betur fer ekki að borga fyrir hana, en honum er hulin ráðgáta hvernig þessir staðir á Ísafirði bera sig. Gunnhildur og Fabri af Stúdentakjallaranum komu líka við og svo virðist sem ofurmennishæfileikar Ósýnilega mannsins hafi smitast að einhverju leyti yfir á þau enda þurftu þau að bíða nærri jafn lengi, aðrir fengu hins vegar matinn sinn mun fyrr.

Ævintýri ósýnilega mannsins, fjórði hluti:

Ósýnilegi maðurinn ákveður seinnipartinn á Páskadegi að kominn sé tími á heimför. Hann leggur af stað um kaffileytið á tómann maga ef frá er talinn hluti af páskaeggi. Hungrið er þó ekki byrjað að láta á sér kræla þegar keyrt er fram hjá Hólmavík og ákveðið er að borða á Brú. Þangað er komið tuttugu mínútur yfir átta. Veitingastaðnum á Brú er lokað klukkan átta. Þá er það Hyrnan í Borgarnesi - og þó þangað sé komið vel fyrir tíu er búið að loka. Þegar til höfuðborgarinnar er komið er það svo loks BSÍ sem bjargar Ósýnilega manninum frá því að verða endanlega ósýnilegur af hungri.

Undantekningin frá þessu um helgina var þó Guðný frænka sem eldaði ítrekað ljúffengt burritos á mettíma.

En Ísafjörður er merkilega fallegur bær. Það er að vísu slatti af ljótum nýjum húsum sem skyggja á gamla bæinn meðfram pollgötu en þegar maður er kominn þar bak við þá er hellingur að skemmtilegum húsum. Raunar ásamt gamla bænum í Hafnafirði og Akureyri auðvitað líklega mest sjarmerandi bæjarstæði á landinu sem ég hef komið til. Miðbær Reykjavíkur er dæmdur úr leik út af því það er alltaf rok þar, eins og í restinni af Reykjavík. Fyrir utan það að miðbærinn fær svo mörg mínusstig fyrir restina af Reykjavík. Hmm, líklega hefði ég átt að fylgja einkunnarorðum hátíðarinnar og aldrei fara suður? Of seint núna, en Reykjavík verður náttúrulega aldrei annað en stoppistöð.

2 Comments:

Blogger Hr. Svavar said...

Hey, gaman að þessu maður :D við vorum þarna líka Hraunarar og Langi Mangi er alveg bestur :)

Bestu kveðjur og mikill kærleikur.
Svavar Knútur

8:12 e.h.  
Blogger Ásgeir said...

Gaman að hitta þig fyrir vestan, annars var viðtal við Manga í einhverju blaði, hann heitir víst Elvar og er trúður. En í mínum huga verður hann alltaf Langi Mangi. Helling kærleikur til baka,

Ásgeir

2:43 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home