föstudagur, desember 13, 2002

Bókahornið snýr aftur!

Khomeini hefur gefið okkur tækifæri til að endurheimta okkar brothættu trú ... trúna á mátt orðsins – Norman Mailer

Já, ég veit ég hef svikið ykkur um uppáhaldsdagskrárlið ykkar – en hér snýr Bókahorn Gambrans loks aftur. Nú hefur bókahorn Gambrans nefnilega loks náð í skottið á sér, þetta hófst allt saman þegar ég hafði nýlokið Danskennslu fyrir eldri borgara eftir Bohumil Hrabal og var ég lítillega búin að tjá mig um hana þegar ég ákvað að byrja á byrjuninni og fræða ykkur um allar þær skruddur sem ég hef lesið eftir að til Tékklands kom. Eitthvað var ég búinn að tjá mig um þetta verk Hrabals, best að vitna í sjálfan mig til þess að halda þessu í réttri röð:

Bókin er ein setning – bara dálítið löng setning, rétt 100 síður. Margar kommur, einstaka spurningamerki en enginn einasti punktur. Þetta er náttúrulega glæsilegt ull-á-ykkur á alla sérskipaða stílista sem fullyrða að stuttar setningar séu forsenda góðs stíls. Og gengur þetta upp? Hrabal er náttúrulega alltaf skemmtilegur, en nei, ekki alveg. Kannski ef þetta væri styttra, kannski ef þetta væri á íslensku – það skiptir mig venjulega ekki miklu máli hvort bók er á íslensku eða ensku en ég hugsa að í tilfelli eins og þessu þá telji þessi aukaprósent sem móðurmálið hefur. Maður heldur frekar athyglinni.

Og ekki var hún jafn skemmtileg og Alveg glymjandi einsemd og Lestir undir smásjá. Talandi um glymjandi einsemdina – einhverntímann verður maður að taka Stórsvigið í Prag, he he. Einhver memm? Líkurnar á að villast ekki eru líklega um það bil engar en það er óþarfi að láta það stoppa sig.

Og næst var Miðnæturbörn Salmans Rushdie. Hvað er hægt að segja um Midnight’s Children? Til að byrja með er rétt að geta þess að ef einhver lesandi heldur að Salman Rushdie sé aðallega frægur fyrir hina alræmdu fötwu sem Khomeini útdeildi honum þá, jú, hefur hann að vísu rétt fyrir sér. En hann á þá frægð margfaldlega skilda, Midnight’s Children vann Bookerinn (og seinna Booker of bookers, besta bókin til að vinna í 25 ár) löngu áður en Söngvar Satans kom út.
Það að lesa Rushdie minnir eiginlega á að sjá einhverja brjálæðislega fimleikasýningu sem þar sem hann stekkur alltaf lengra og lengra og textinn verður brjálæðri og brjálæðri. En aldrei virðist hann detta. Hann er oft fjandi nálægt, manni sýnist hann oft vera um það bil að taka dýfu – en alltaf lendir hann á löppunum. Þessi bók, hún er eiginlega uppreisn gegn spakmælum Stalíns að dauði eins sé harmleikur en dauði (og ef út í það er farið líf) milljóna sé tölfræði. Spakmæli sem eru væntanlega hvergi sorglegri en í þessum óhugnanlegu fjölmennu milljarðalöndum tveim, Indlandi og Kína. Við sjáum fyrst afa hans í Kasmír, einkennilegt tilhugalíf hans og verðandi ömmunnar, ferjumanninn ævaforna sem segir sögur þegar hann ferjaði Jesú, spikfeitan og sköllóttan, nei, ég ætla ekki að fara lengra, það er of margt sem kemur á óvart, en einhvernveginn tekst Rushdie að gæða sögu Indlands lífi – þú færð Indland beint í æð því Saleem Sinai fær Indland beint í æð – og Pakistan og verðandi Bangladesh, systurlöndin tvö sem það á í eilífu stríði við.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home