miðvikudagur, júní 26, 2002

Þessi rólyndis fjölskylda ...

Siggi frændi með enn eitt ævintýrið - hér er baksíðufréttin úr DV:

Fer á vélsleða út úr flugvél

Nýtt áhættuatriði verður framkvæmt um næstu helgi þegar maður keyrir á vélsleða út úr flugvél yfir Íslandi. Ökumaðurinn mun sitja á sleðanum í u.þ.b. 30 sekúndur eða sem svarar falli í 6.000–7.000 fet. Síðan opnast fallhlífar ökumannsins og sleðans og lenda þeir á sama stað ef allt gengur að óskum. Það verður Íslendingur sem stýrir sleðanum en aðstandendur uppákomunnar segja ekki tímabært að greina frá hvaða „ofurhetja“ muni eiga í hlut.

Þetta er í fyrsta skipti sem þessi tilraun verður framkvæmd í heiminum og er Sigurður Baldursson upphafsmaður tiltækisins. „Ég er búinn að vera með þessa hugmynd í kollinum í mörg ár,“ segir Sigurður.
Hann starfar hjá Motul.is sem er umboðsaðili Frontier Films á Íslandi. Þeir framleiða áhættuvélsleðamyndir og kviknaði áhugi þeirra strax á samstarfi þegar Sigurður skýrði þeim frá hugmyndinni. Tveir myndatökumenn, annar íslenskur og hinn amerískur, munu kvikmynda atriðið í frjálsu falli og er því ætlað að verða hápunktur nýrrar myndar sem kallast Cold Smoke 5. Hún verður að líkindum frumsýnd á Íslandi í haust að sögn Sigurðar.
Staðsetning atriðisins liggur ekki endanlega fyrir en þau mál munu skýrast á næstu dögum að sögn Sigurðar. Hann er enginn nýgræðingur í fallhlífarstökki, því hann hefur stokkið um 1800 sinnum við ýmsar kringumstæður.

-BÞ

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home