Fékk bókatíðindin í pósti fyrir helgina. Ekkert sérstaklega spennandi bókajól, a.m.k. ekki hvað skáldsögur varðar. Aftur á móti er óvenju mikið spennandi í ævisögunum og barnabókunum. Tilhugalíf Jóns Baldvins gæti til dæmis verið spennandi ef hann er alveg búinn að afskrifa kommbakk í pólitíkina – ef það hins vegar er ennþá í myndinni þá hefur hann sjálfsagt vit á að segja ekki frá öllu. Eins er KK örugglega efni í fína ævisögu, verst að Einar Kárason skrifar hana. Síðan er einhver Þorsteinn Antonsson að skrifa höfundarsögu sína, honum hefur víst tekist að gefa út tuttugu bækur án þess að nokkur taki eftir því sem er vissulega afrek.
Þá er foreldrasaga / bernskuminningar Astrid Lindgren forvitnilegar og miðað við barnabækurnar þá ætti maður kannski að ganga í barndóm aftur. Framhaldið af Ferð Eiríks til Ásgarðs / Jötunheima er komið, en þær eiga vissulega heima við hliðina á Goðheimum og Snorra-Eddu í heiðnum bókaskápum. Og barnabók eftir James Joyce? Sá krakki sem les það verður vafalaust nógu skemmdur til að enda í bókmenntafræði … Ekki það að til dæmis Dubliners sé neitt flókinn, svona við fyrstu sýn. En svo kemst maður af því að í raun hafi maður ekki skilið hana nema hafa kort af Dublin upp úr aldamótunum – allar almennilegar útgáfur eru með svoleiðis þannig að Penguin útgáfurnar eru náttúrulega bara drasl – því það skiptir öllu máli hvort hann labbaði í norður eða suður þegar hann kom heim úr skólanum, til dæmis labbaði hann í suður í einni sögunni og þá endaði hann í Arabíu – en samt bara Araby sko. Æi, Joyce er svona gaur sem bókmenntafræðingar hafa alveg misst sig yfir, rétt eins og íslenskuliðið yfir Laxness. Ekkert slæmir greyin þannig séð, bara ýmist oftúlkaðir og oflofaðir. Svo er Valli sport að gefa út bók, Nennekkja feisaða. Ég held svei mér þá að hann og katrin.is ættu bara að giftast, ef hún er þá hætt að daðra við Gneistann …
En jæja, skáldsögurnar já. Versti titill? Hundrað dyr í golunni. Án vafa, hinir vondu titlarnir eru að minnsta kosti flestir hálfskondnir á sinn Ed Woodíska hátt. Er æxlið illkynja gæti til dæmis alveg verið nafn á mynd and-meistarans. En helst virkar Lovestar spennandi, plottið virkar samt full líkt Bláa hnettinum. Leiðin til Rómar er ég að vona að nái þeim herslumun sem Myndin af heiminum vantaði. Fyrsta bókin í þessari ritröð sem Einar Már er að skrifa var svo óspennandi lesning eitthvað að ég hef engan áhuga á að lesa framhöldin en bíð þess í stað spenntur eftir að Einar Már fari að gera eitthvað spennandi aftur. Spurning með bókagerðarvélina Guðrúnu Evu, ég er ennþá að bíða eftir meistarstykkinu sem hún getur svo augljóslega skrifað, kannski það sé Albúm eða Píanóin? Steinar Braga er ég skeptískur á, mér heyrist að það sé aðallega bókmenntafræðingum sem finnst hann skemmtilegur sem er alltaf varhugavert. Spurning með Mikka vissulega, svo eru það ljóðskáldin tvö sem eru að gefa út fyrstu skáldsöguna, Sigtryggur og Sigurbjörg. Þau virkuðu einmitt meira á mig sem prósaskáld heldur en ljóðskáld einhvernveginn, kannski var það bara af því þau höfðu fengið eitthvað að borða þann daginn? En skáldsögurnar þeirra virka spennandi, ef að þessi bók hans Sigtryggs er þá skáldsaga, það virðist frekar óljóst. Já, og svo gengur forsætisráðherra vor um stelandi. Er það nú skynsamlegt fyrir kosningar? Ætli hann sé kannski að stela listabókstöfum? Jæja, best að hætta þessu, mér tekst aldrei að toppa þennan aulabrandara hvernig sem ég reyni. Best að ljúka bókahorninu af og hypja sig svo heim. Hélduði kannski að þetta væri bókahornið? Nei, nei, þetta var bara rant um bækur sem ég get ómögulega lesið neitt á næstunni af því ég barasta finn ekki íslenskudeildina í bókabúðinum hérna.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home