föstudagur, júní 11, 2004

England - B - riðill

Það hefði verið fyrirgefanlegt að tapa 6-1 fyrir Frökkum, Spánverjum eða Hollendingum – en ekki fyrir þessu miðlungsliði. Jú, þeir eiga séns á að vinna keppnina ef allt gengur upp – og þá meina ég allt. En þeir eru slakari en bæði Portúgalir og Spánverjar, sem líklega eiga eftir að fella þá í Fjórðungsúrslitunum. Miðjan er að vísu frábær þó það séu ákveðin spurningarmerki hvernig hún verður skipuð. Nicky Butt er traustur leikmaður, ekki í heimsklassa kannski en leysir sitt hlutverk vel og leyfir skapandi mönnunum í kringum sig að njóta sín. Kryddstrákurinn Beckham spilar ólíkt betur með landsliðinu en félagsliðunum í seinni tíð og Gerrard og Lampard áttu einfaldlega báðir frábært tímabil. Scholes kannski ekki gert miklar rósir nýlega en menn vita hvað litli naggurinn getur. Þá er Bæjarinn Owen Hargeaves afskaplega vanmetinn leikmaður, svona rétt eins og Joe Cole er ofmetinn.
En aðrar stöður í liðinu eru vandamál. David James hefur staðið sig þokkalega en áttum okkur samt á því að hann féll í fyrra með West Ham og markmenn 2 og 3, Paul Robinson og Ian Walker (sem á ekki erindi í þessa keppni) féllu í vor. Þetta segir sína sögu. Þá er vörnin, aðalstyrkur liðsins í HM, þunnskipuð. Hún verður í lagi ef enginn meiðsli bætast við, Sol Campbell, John Terry og Ashley Cole eru hörkuleikmenn og Neville greppitrýnið hefur gert merkilega fáar gloríur undanfarið. En á meðan Cole hefur ágætis varamann í Wayne Bridge þá er ekki um auðugan garð að gresja þess utan á bekknum – Ledley King og Jamie Carragher eru menn sem ekki ber að leita til nema í hallæri – sem gæti vel orðið tilfellið. Eins er sóknin vandamál, þrátt fyrir smá þurkatímabil í vetur er Owen frábær framherji – en það vantar alvörumann með honum. Wayne Rooney er efnilegur, ekki meira en það, ofmetinn raunar. Vassell sterkur þá sjaldnan hann er í stuði. Emile Heskey? Varla. Jermain Defoe hefði verið ágætis kostur, finnst hann líklegri en Rooney til þess að festa sig í sessi sem alvöru skorari í framtíðinni. Sem sagt, brothætt enskt lið sem má teljast heppið að Sviss og Króatía séu ekki sterkari en raun ber vitni. Þó er ótalinn einn verulegur styrkur, Eriksson sjálfur, þjálfari sem kann sitt fag hvað sem öllu fjölmiðlafári líður. En er hann nógu snjall til þess að gera heimsklassalið úr landsliði sem er alls ekki með nógu marga heimsklassaleikmenn? Þó er helst ein ástæða fyrir því að ég væri alveg til í að sjá enska liðið renna á rassinn – þessi óþolandi tilhneyging íslenska íþróttafréttamanna að tala um enska liðið – og ensk félagslið raunar yfir höfuð – eins og um sé að ræða okkar lið, strákana okkar. Það er meira segja gengið svo langt að þegar við mætum þeim í fótboltaleik þá leggjumst við kurteislega niður svo þessar elskur fari nú ekki að meiðast. Spurning hvort þjóðin hefði snúið baki við landsliðinu ef Brynjar Björn hefði verið til staðar til að sparka Beckham út úr EM?

Spá: Fara upp úr riðlinum en verða stoppaðir strax eftir það.

Lykilmenn: Sol Campbell, foringi varnarinnar, Michael Owen – eini alvöru senterinn, Steven Gerrard og Frank Lampard ef hann verður í byrjunarliðinu.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home