sunnudagur, janúar 02, 2005

Bíóuppgjör 2

Verstu myndir ársins:

Ekkert svo margar myndir beinlínis virkilega vondar, ef maður sér nógu mikið af bíómyndum um ævina lærir maður að forðast þær. Þó nokkrar, þessar standa upp úr. Fjallaði áður um fyrstu tvær á Kistunni. Allar sá ég þær raunar á kvikmyndahátíð, það skýrist líklega helst af tvennu: Bæði því að ég var með frípassa á báðar hátíðirnar og hinu að oft hefur maður heyrt minna um þessar kvikmyndahátíðamyndir og er því ólíklegri til þess að vara sig á draslinu.

Múrinn

Illa unnið úr þokkalegri sögu, bara mynd af gömlum miðaldrauppgjafarpönkurum klipptir saman við gamlar ljósmyndir sem lítið er á að græða. Ekkert einasta bíó.

Undir Stjörnuhimni

Fékk víst ágæta dóma hérna, enda virðist bannað að tala illa um mynd með góðan ásetning, en þetta er einfaldlega skelfilega illa gerð mynd sem spilar inná samviskubit Vesturheims gagnvart þriðja heiminum án þess að segja neitt sem skiptir máli og er um leið með snert af nýlendustefnukomplex sjálf. Jafngildi þess að setja tíkall í styrktarbauk Rauða krossins þegar fimmþúsundkallinn er jafn auðgefanlegur.

SuperSize Me

Preaching to the converted. McDonalds óhollt? Telst þetta sem sagt uppgötvun til þess að byggja heila bíómynd á? Gallinn við myndina er í raun fyrst og fremst þessi: Næringargildi hennar er svona álíka mikið og í einum Big Mac og þú ert álíka tómur að innan eftir áhorfið.

Vonbrigði ársins:

Hellingur af myndum sem ollu vonbrigðum, sumar voru kannski góðar en ekki þau meistaraverk sem reynt hafði verið að telja manni trú um.

Whale Rider

Óttalega dáðlaus nýsjálensk mynd, sagan klisja og verður það áfram þó henni sé komið fyrir hjá frumbyggjum eyjálfu. Og hvaða steypa var þetta með hvalina? Var alls ekki að virka nema helst rétt í restina. Það sem bjargar henni frá vondumyndaflokknum var leikur Keishu Castle-Hughes sem átti óskarstilnefninguna alveg skylda – en á þó sérstaklega skilið hlutverk í almennilegri mynd fljótlega.

Ken Park

Sumar sögurnar voru ágætar, en aðrar afleitar. Alltof upptekinn við að sjokkera til þess að takast það almennilega, þegar fæstir karakterarnir eru svona ósannfærandi verður maður bara dofinn frekar, nokk sama.

Lost in Translation

Ókei, einstaka atriði eru hjartnæm og frábær og leikurinn mjög góður – en sögupersónurnar eru bara alltof tilgangslausar eitthvað, asnalega vitlaus. Í erlendri stórborg, með næg fjárráð og enga sjáanlega ástæðu fyrir að njóta ekki alls þess sem Tókýó hefur upp á að bjóða, en nei, best að hanga heima á hótelherbergi á bömmer yfir engu sérstöku. Fyrir utan óttalega kjánalega brandara um að, jeremías! – það tala ekki allir ensku hérna! Ástarsagan vissulega góð þegar hún fær að njóta sín – en búningurinn um hana því miður alltof illa gerður.

Hetja

Rétt að taka fram að Hero er ágætismynd – en ekkert meira. Dálítið svona útþynnt útgáfa af Skríðandi tígri. Stundum hálfgervileg, jafnvel tilgerðarleg. Og plottið? Hvar? Kannski var ég ekki rétt stemmdur en hún engan vegin náði mér.

Shrek 2

Rétt að taka fram að þetta er hörkufínt framhald, bara alls ekki jafn góð og fyrri myndin þó það væri margtuggið í flestum dómum um myndina. Kom þá tvennt til, Skrekkur sjálfur var óttalega litlaus miðað við fyrri myndina og þurfti því enn frekar á asnanum að halda til að bera myndina uppi, stígvélaði kötturinn kom sterkur inn til viðbótar og Gosi átti frábært atriði. Svo voru söngatriðin óttalega slöpp, átti að vera paródía, já, já, en stundum keypti maður það bara ekki. Shrek var klassísk, þessi var bara góð en ekkert umfram það.

Þá er komið af þeim tveim myndum sem ársins verður líklega minnst fyrir. Leikstjórarnir lögðu allt undir, á tíma leit út fyrir að myndirnar fengju enga dreifingu. En viti menn, þetta urðu umtöluðustu myndir ársins og nutu vinsælda sem ekki hafa áður þekkst (önnur var vinsælasta myndin á öðru máli en en ensku í sögu Bandaríkjanna og hin vinsælasta heimildarmynd frá upphafi) og virðast því vera stærsti sigur sem óháð kvikmyndagerð hefur nokkru sinni unnið. En gallinn er einfaldlega þessi; báðar voru klisjukenndar, manipúlerandi og árið hefði sjálfsagt orðið betra án þeirra. The Passion vantaði einmitt þetta, ástríðu. Jesú virtist vera að sofna út allra myndina og margumtalaðar limlestingar fengu lítið á mann. Gibson gerði hörkumynd á undan með nóg af ástríðu, Braveheart, og það sama má raunar segja um Michael Moore. Bowling for Columbine var myndin sem hefði átt að fella Bush, Fahrenheit 9 / 11 fór oft niðrá hans level. Talaði niður til áhorfandans. Ekki vond mynd beinlínis, en það voru ákveðnir hlutir að henni. Moore var of reiður til þess að gera góða bíómynd, náði ekki að channella rétt – það vantaði að leggja áherslu á aðalatriðin, ná réttum fókus.

Svo er það topp 10 listinn, væntanlegur annað kvöld þegar ég varð kominn heim á Öldugötuna. Þangað til getið þið alltaf skemmt ykkur hérna:

Dagbókin sem breytir lífi ykkar árið 2005

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home