fimmtudagur, apríl 07, 2005

Sin City

Flestir munu líklega tala mest um tæknina og myndatökuna í myndinni, það sem greip mig fyrst voru orðin. Texti Millers er magnaður og leikararnir fara vel með hann, opnunaratriðið minnti helst á ljóð Pablo Neruda og stundum gengur vofa Shakespeares um götur borgarinnar. Guðfeður rökkurmyndanna þeir Raymond Chandler og Dashiel Hammett eru þó mestu áhrifavaldarnir og sagan sjálf er kokteill af öllum bestu Sódómusögnum frá upphafi vega. Nema að það má vissulega finna nokkra hjartahreina menn í þessari borg. Með ýmislegt á samviskunni vissulega en það þarf að gera ýmislegt til að lifa af á svona stað.
Í raun eru þetta fyrst og fremst þrjár aðalsögur sem tengjast mislauslega, tvær þeirra eru heillandi stórborgarstef við Fríðu og dýrið og sú í miðið meinfynin ofbeldisorgía með talandi hausum og fleiru skemmtilegu. Sjónræna hliðin er auðvitað stórkostleg, eitthvað sem maður gæti ýmindað sér að Orson Welles hefði gert í Citizen Kane ef hann hefði haft nútíma tækni. Og þó hún sé vissulega ótrúlega groddaleg þá er þetta ein ljóðrænasta bíómynd sem ég hef séð.
Jú, og hún er stranglega bönnuð innan sextán ára, það eru mjög góðar ástæður fyrir því. Eða eins og Hartigan segir við litlu stúlkuna sem hann bjargar: "Cover your eyes, Nancy! I don't want you to see this." En auðvitað á hún eftir að sjá meira en nóg áður en yfir lýkur.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

...yfir lýkur.

Góð samantekt annars, hlakka til að sjá myndina.

12:38 e.h.  
Blogger Ásgeir said...

corrected

1:22 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home