mánudagur, júlí 04, 2005

Til varnar Tom Cruise

Það virðist mjög í tísku að tala illa um Krúsa gamla þessa dagana, ekki að það hafi ekki alltaf verið vinsælt. Sannar líklega bara það að ískyggilega margir Íslendingar eru dyggir áhorfendur af Opruh þó allir segist „bara hafa horft á þennan eina þátt af því allir voru að tala um hann sko.“ Það má vel vera að hann hafi verið ömurlegur í þessum þætti, kannski var hann bara svona upptjúnaður af ást og kannski var hann bara að leika svona illa. Mér er nokk sama, ef menn ætla að leika illa þá er fínt að þeir geri það í þætti sem ég sé aldrei. En hversu heimskulegur sem Cruise kann að hafa verið þá segir þetta eiginlega meira um samfélagið en hann. Leikarar eru dæmdir fyrir hvernig þeir standa sig í spjallþáttum eða slúðursíðum eða hvaða heimskulegu trúarbrögð þeir ástunda, ekki hvernig þeir standa sig uppi á tjaldinu. Persónulega er mér sama ef hann hoppar uppá stóla, rústar hótelherbergjum eða borgar tvítugum stelpum fyrir að deita sig ef hann leikur skikkanlega.

Framan af gerði hann það vissulega ekki. Ég man vel að ég þoldi Tom Cruise ekki enda Top Gun viðurstyggilega leiðinleg bíómynd sem og flest annað sem hann gerði framan af ferlinum – og oftast voru aðrir leikarar en hann það skásta við myndirnar. Síðan gerðist eitthvað. Eftir að einstaka góð frammistaða (t.d. Rain Man) og hellingur af rusli hafði gert hann að einhverri stærstu stjörnu Hollywood þá virtist hann skyndilega taka þá ákvörðun að fara að leika í almennilegum bíómyndum og reyna að leika almennilega líka.

Af síðustu ellefu myndum sem hann hefur gert höfum við sjö - Collateral, Minority Report, Jerry Maguire, Magnolia, Interview With the Vampire, Vanilla Sky og Eyes Wide Shut – sem eru afbragðsmyndir þó flestir eigi ennþá eftir að fatta tvær þær síðastnefndu. Svo eru fjórar til viðbótar (War of the Worlds, The Last Samurai og Mission: Impossible myndirnar tvær) góðra gjalda verðar, stórmyndir sem virka ágætlega með poppkorninu þó þær hafi kannski ekki verið merkilegar. Þó vissulega hafi öll close-upin af Thandie Newton í M:I 2 gert myndina rúmlega bíómiðans virði. Það er sko manneskja til að hoppa uppá stóla út af.

9 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Það er ekkert að Top Gun, þú hefur bara ekki fattað hana.

9:01 f.h.  
Blogger roald said...

ásgeir, eg er nokkuð oft sammála þér en nú held ég að við séum á öndverðum meiði.

þótt ég sé reyndar sammála því að cruise hafi sínt ágæta spretti í interview, magnolia, collateral, vanilla og eyes sem eru allt góðar myndir, þá finnst mér þetta enginn sérstakur leikari heldur frekar stjarna. og hvað útgeislun varðar þá er hún ekki meiri en hjá harðfisk.

auðvitað eigum við síðan ekki að láta einkalíf listamanna hafa áhrif á okkur, listina og lífið á að aðgreina en þú verður að viðurkenna að stundum er það soldið erfitt vegna allrar þeirrar athygli sem þetta fólk fær.

ég reyni td að hugsa ekki til þess að woody allen sé með fósturdóttur sinni og að polanski hafi sofið hjá krakka af því mér finnst þeir frábærir listamenn. samt get ég nú ekki varist þeirri tilhugsun þegar ég fer á myndirnar þeirra.

hvað cruise síðan varðar, þá hefur hann aldrei verið í neinu uppáhaldi hjá mér þannig að umræðan undanfarið skiptir engu sérstöku máli fyrir mig.

10:21 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Woody Allen er ekki með fósturdóttur sinni, hann er með fósturdóttur fyrrverandi eiginkonu sinnar. Stór munur þar á. Hann var aldrei í neinu föðurhlutverki í hennar lífi.

10:27 f.h.  
Blogger roald said...

okei þá, fósturdóttur fyrrverandi eiginkonu sinnar. samt soldið spúki ekki satt? ég meina var maðurinn ekki búinn að þekkja hana síðan hún var barn?

10:49 f.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Mér finnst það að allavega stór munur þarna á.

--

Raunar ekki fyrrverandi konunnar sinnar heldur "kærustu", þau voru aldrei gift og bjuggu aldrei saman.

11:54 f.h.  
Blogger Ásgeir said...

Ég er í raun alveg sammála því að Krúsi sé venjulega með útgeislun á við harðfisk. En einmitt þetta sjarmaleysi hefur smellpassað við hlutverkin sem ég nefndi (nema Jerry Maguire þar sem var sjarmerandi í eina skiptið á ævinni), einhver þarf jú að leika harðfiskana.

4:41 e.h.  
Blogger Siggi said...

En Ásgeir, ef þú hefðir nú verið að vinna á næturvakt og ekkert annað að gera en að horfa á Oprah þá myndirðu átta þig á látunum í kringum þann þátt. Hann var ekki eðlilegur, og ég er ekki að tala um brjálaður-"af því að hann er ástfanginn" klisjann, heldur var hann augljóslega undir áhrifum einhvers efnis... annars en sykurs eða ástar. Ég er annars mjög hrifinn af honum sem leikara, í seinni tíð, og þessi þáttur um hann hefur engin áhrif á það álit mitt. Þetta er kannski eitthvað svona "you had to be there [/see it]" dæmi svo þú áttir þig á því.

9:34 e.h.  
Blogger Ásgeir said...

Eða I didn't wanna be there? Má vel vera að þetta hafi verið eitthvað extreme dæmi en þetta er bara kunnuglegra en svo að ég kaupi það.

9:55 e.h.  
Blogger Siggi said...

Það er ekkert verið að reyna að selja þér þetta, þetta er gefins, þröngvað upp á þig. Hann var nutcase. Ekki bara ást.

11:39 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home