miðvikudagur, júní 26, 2002

Manchester United States

(íþróttapistil sem jafnvel króníski antisportistinn Óli gæti haft gaman af)

Áður en einhver sakar mig um órökstuddan róg gagnvart íþróttastórveldinu Bandaríkjum Norður-Ameríku og enska landsliðsfyrirliðanum David Beckham skal ég standa fyrir máli mínu. Hvað Bandaríkin varðar þá mega þau mín vegna alveg vinna heimsmeistaratitla í íþróttum - bara ekki fótbolta. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að þeir hafa hvorki neinn skilning á leiknum né þá að þeir beri neina virðingu fyrir honum - Það er líka algengt að Bandaríkjamönnum sé sama um hluti sem fólki annarsstaðar í heiminum þykja skipta máli. En þetta ristir jafnvel dýpra. Gefum einum upplýstum Bandaríkjamanni sem skrifar á salon.com, David Thompson, orðið:

Football does not take root in the U.S., so they say, and there are all the old reasons -- not enough goals, not enough opportunities for commercial breaks, an absence of melodramatic violence, too much stress on the mind. Well, maybe America can and will live with those crushing definitions of itself.

En Evrópubúar eru svosem ekki í mikið skárra standi. David Beckham er sönnun þess. Ég talaði áðan um að hann væri stærsta knattspyrnustjarna heims í dag - um það er líklega enginn vafi. En hann er fráleitt sá besti. Hann hefur jú afbragðssendingar en þess utan er hann aðallega sterkur í föstum leikatriðum, fyrirfram ákveðnum hlutum. En af hverju er hann vinsælasti knattspyrnumaður heims þegar mun færari menn eins og Zidane, Raúl, Totti, Henry* Giggs og Rivaldo svo fáeinir séu nefndir leika listir sínar fyrir ekki færri áhorfendur? Jú, hann á eiginkonu sem var einu sinni í þekktu tyggjókúlupoppgrúppu, hann á son sem er skýrður eftir frekar óspennandi hverfi í New York, hann telst sætur á mælikvarða fermingarstúlkna, hann var varla talandi á enska tungu en talar núna aðeins undir ströngu eftirliti fjölmargra sponsora sem hafa tamið stráksa það vel að viðtölin við hann hafa breyst úr því að vera hallærislega pínleg í að vera óendanlega leiðinleg því engan má móðga. Semsagt málhölt, vel tamin karlmannstískudrós í fermingarstúlkudraumi - getur Evrópa og þar með talið Ísland lifað með þessari skilgreiningu á sjálfri sér?

* Henry er einmitt alger andstæða Beckham í viðtölum, orðheppin og hugsandi, þó þau viðtöl fari ekki fram á móðurmálinu, hann hefur meira að segja innleitt hugtakið fox in the box inn í enska tungu þegar hann skilgreindi veikleika Arsenalsóknarinnar og sagði að sig vantaði rebba með sér. Aðrir Arsenalkempur eins og Tony Adams og Alan Smith hafa svo starfað sem pistlahöfundar, er nema von að við Nick Hornby höldum með þeim?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home