föstudagur, nóvember 08, 2002

Var að lesa annars ágæta grein eftir Úlfhildi Dags um Stefán Mána, ég hef aldrei nennt að lesa Stefán eftir að Nanna sannfærði mig um hve Hótel Kalifornía væri vond bók, en seinna í greininni kemur þessi stórfurðulega setning: „Því hefur verið haldið fram að skáldsögur yngstu kynslóðar íslenskra rithöfunda einkennist af einhverskonar afturhvarfi til raunsæis, og hefur orðið ný-raunsæi jafnvel verið nefnt í þessu sambandi. Er þá væntanlega verið að vísa í skáldsögur Auðar Jónsdóttur, Gerðar Kristnýjar, Guðrúnar Evu Mínervudóttur og Mikaels Torfasonar.“ Auður Jóns og Gerður Kristný (fyrst hún er að fara skrifa um þjóðhátíð í eyjum), jú jú, kannski ekki fjarri lagi. En Mikki og Guðrún Eva raunsæisskáld???? Allt í lagi, hún segist ekki fyllilega sannfærð um þessa skilgreiningu sjálf – en eignar hana vissulega engum öðrum – en hugmyndin að þessi tvö séu raunsæisskáld er einfaldlega út í hött. Mikki alltaf með annað fótinn, stundum báða, í brjálæðinu og martröðinni og Guðrún Eva ævinlega með annan fótinn í ævintýrunum. Enda er það einmitt þeirra helsti styrkleiki, brjálæðið í Mikka (sem getur kannski sjálfum sér um kennt um raunsæisstimpilinn, hann seldi Falskan fugl sem slíkan þó hún hafi lítið með raunsæi að gera – fín og kraftmikil bók engu að síður þegar maður var hættur að pirra sig á paranojsku auglýsingadellunni um að svona væri hið raunverulega Ísland) og ævintýramennskan í Guðrúnu Evu. Það er ýmislegt satt í þessum bókum. Raunsætt? Varla. Sem er náttúrulega hið besta mál, raunsæisstefnan var eitthvert það sorglegasta sem komið hefur fyrir bókmenntirnar, það var eitthvað svo lítill sannleikur í þeim mörgum. Þó vissulega sé til hellingur af heiðarlegum undantekningum frá þessu eins og öðru.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home