miðvikudagur, janúar 15, 2003

Fréttir að andláti Gambrans eru stórlega ýktar, hann er bara búinn að vera á haus. Eða kannski bara latur. Það fer eftir því um hvaða dag er að ræða, maður verður frekar þreyttur eitthvað á því að standa á haus sko. En það er helst að frétta að útlegðinni er lokið, ég slapp heim á klakann við illan leik og er núna orðinn algjör vesturbæingur, Eggertsgatan var náttúrulega á mörkunum. Ekki röndóttur enn þó, að vísu býr leikmaður KR fyrir ofan mig rétt eins og það bjó leikmaður KR við hliðina á mér í vesturgötunni. Það er eitthvað plott í gangi, ég býst við að mér verði boðinn samningur hvað á hverju. En hvað á maður að röfla í ykkur? Tja, ég þarf náttúrulega að klára þessa æsispennandi ferðasögu þó ég sé náttúrulega búinn að kjafta endanum núna, svo eyk ég kannski á almennt þunglyndi fólks og segji frá ævintýrum í atvinnuleit – eða kannski byrja ég í nýrri vinnu í kvöld. Kannski fer ég bara í framboð? Sleppi öllu væli um hugsjónir og vitleysu, verð bara heiðarlegur og segi fólki að ég sé að leyta mér að vinnu og hafi heyrt að þetta sé alveg þokkalega borgað og maður fái að hitta frægt fólk stundum. Ég yrði líklega fyrsti maðurinn til að komast inná þing útá einlægni. En auðvitað gengur það aldrei, þá þyrfti ég líka að segja þeim að ég ætli ekkert að vera öll fjögur árin þó ég sé kosinn fyrir fjögur ár. Ég meina, hafiði hlustað á þetta lið halda ræður? Hafiði hlustað á það tala í sjónvarpinu? Þegar það er að reyna að höfða til fólks by the way – þetta er fólkið sem hinir pólitíkusakrakkarnir velja til að koma fram fyrir sína hönd. Hefur þetta fólk einhverntímann heyrt um ímyndunarafl? Að tala í fleiri en einni tóntegund? Að hafa eitthvað að segja? Nei, og þó … Það borgar sig bara ekki. Því í pólitík þykir það bera vott um óstöðugleika. Eða draumóra. Eða lýðskrum. Fólk með eitthvað að segja gæti hugsanlega verið hættulegt ekki satt, við viljum vera örugg. Seif. Pökkuð inní bómull. Þar með talið landið okkar. Af hverju talar enginn um Kárahnjúka nema í sambandi við virkjanir? Af hverju bendir þetta lið ekki á einhverjar aðrar náttúruperlur núna áður en þær verða virkjaðar? Og af hverju er verið að virka? Hvað er svona spennandi við virkjanir? Ekki nota orðið hagvöxt takk fyrir, annars segi ég hókus pókus. Virkjanir eru svona álíka heillandi og landslag sem heitir Kárahnjúkar, tvær mismunandi útópíur, í annarri eru allir á svifbílum með aulabros eins og Goggi Bush, í hinni eru allir með blóm í hárinu á sauðskinsskóm með aulabros eins og Kolbrún Halldórs – það er sama hverjir vinna, við erum dæmd hvort eð er. Fólk í pólitík vill flest hafa jól allt árið, allstaðar. Það er bara ekki sömu trúar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home