mánudagur, apríl 19, 2004

LjóðaIdol Fréttablaðsins

Forvitnileg keppni í Fréttablaðinu þar sem átta ung ljóðskáld eru sett í útsláttarkeppni með þremur þusandi dómurum á eftir a la Idol. (Bölvað rugl annars að kjósa eina strákinn sem eitthvað vit var í út úr þeirri keppni síðast) Fyrsta umferð búin og á morgun kemur í ljós hverjir lifðu hana af.

Fyrsta einvígið var á milli Benedikts Nikulásar Anesar Ketilssonar, sem brást við því að vera með lengsta nafnið í keppninni með því að senda stysta ljóðið, og Kristín Svava Tómasdóttir sem birtir Leiðréttingu á Únglingnum í skóginum. Það er að mörgu leiti sniðugt, sérstaklega titillinn – en almennt eru ljóðin í keppninni hingað til óþarflegar langlokur, þar á meðal þetta – sérstaklega því að Únglingurinn í skóginum var aldrei það merkilegt til að byrja með. “Ástargyðjan” eftir Nikulás er aftur á móti virkilega flott mynd og segir á sinn hátt alveg jafn mikið í sínum 4 línum og önnur ljóð í 40.

Á laugardaginn var það svo Kristín Einarsdóttir og Steinunn Gunnlaugsdóttir. Bæði ljóðin hefðu verið frábær með réttan ritstjóra. “Sálin er rakki sem á skilið að þjást” eftir Kristínu er virkilega flott fyrstu 3 erindin en það 4 virkar ekki alveg jafn vel. Allt í lagi en ekki á sama standard og restin af ljóðinu. Nafnlaust ljóð Steinunnar er svo með virkilega fína mynd en hefði virkað betur ef það hefði annað hvort verið skipt almennilega upp í línur eða farið alla leið í hina áttina og gert að prósaljóði – þetta er ekki alveg að virka þarna í milliveginum.

Á sunnudeginum kepptu svo þeir Jón Magnús Arnarsson a.k.a. Vivid Brain og Ófeigur Sigurðsson. Báðir kunna tæknina en hvorugt ljóðið er nógu gott. Nafnlaust ljóð Jóns er dæmi um frábæra tækni sem manni gæti ekki verið meira saman um, ekkert hjarta sjáanlegt, það týnist í orðaflaumnum og öllu sniðuga ríminu. Ófeigur hins vegar er flugmælskur á köflum og ljóðið ryþmar vel en það er óþarflega langt og stefnulaus – ég veit hins vegar að hann getur miklu betur þannig að ég vona að við fáum tækifæri til að sjá það.

Síðasta einvígið er svo á milli tveggja ekki ólíkra ljóða, stuttra æskumynda sem eru kannski ekki það frumlegasta í heimi en mjög skemmtilega einlægt hjá báðum og ef eitthvað er ættu þau bæði skilið að komast áfram á kostnað sunnudagsskáldanna. “Hamingja” Atla Bollasonar er þó alls ekki jafn gott ljóð og “Hugfróun í morgunsárið” eftir Hildi Lilliendahl Viggósdóttur. Bæði eru einlæg og ekta en það seinna er miklu ljóðrænna.

Þannig að: Benedikt, Kristín, Ófeigur og Hildur ættu að komast í undanúrslitin. En nú kemur í ljós hvort svo ólíklega vilji til að símakosning sé marktæk þegar kemur að ljóðum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home