mánudagur, desember 06, 2004

Helvítis bókmenntaverðlaun

Gagnrýnendurnir sem rætt var við í Kastljósi hvöttu til umræða – en á milli hverrra? Þeirra tveggja?

Ég ætla nefnilega ekki að nöldra yfir tilnefningunum. Ástæðan er einfaldlega sú að ég hef ekki lesið neitt af þessu – frekar en flestir. Jú, einhverjir nokkrir gagnrýnendur, starfsmenn forlaganna, höfundarnir sjálfir og eitthvað starfsfólk bókabúða máski. Það ástand mun vissulega batna mikið uppúr aðfangadegi – en einmitt þá líkur nær allri bókaumræðu á Íslandi þangað til næsta nóvember. Þá, um leið og nítíuogeitthvað prósent lesenda byrjar að lesa.
Háskólanemar, m.a. bókmenntafræðinemar, eru í prófum þannig að þeir hafa lítinn tíma frekar en aðrir þó þeir væru ein þeirra hópa sem væri hvað líklegastur til þess að vilja taka þátt í umræðunni. Þess vegna furða ég mig á því af hverju bókaforlögin stígi ekki nauðsynlegt skref í að berjast aðeins gegn þessu skrímsli sem jólabókaflóðið er með því að tilkynna tilnefningarnar eftir áramót, febrúar helst svo fólk geti náð sér eftir mestu vertíðina. Þá gæti orðið alvöru umræða með þáttöku fjölda fólks sem hefði lesið allar eða stóran hluta bókanna, umræða sem gæti glætt lífið í bókasölu einmitt á öðrum tíma en jólunum.
Þetta mundi samt örugglega ekki draga neitt úr sölu um jólin, verðlaunin hafa aðallega þau áhrif í dag að þau hvetja til sölu á tilnefndu bókunum á kostnað hinna – þetta mundi jafnast út en svo kæmi kippur í sölu á þessum tíu bókum sem voru tilnefndar eftir áramót, það yrðu þá væntanlega bækur sem fólk keypti sér sjálft svona einu sinni. Þá væru verðlaunin líka marktækari, ég efast ekki um að fólkið sem situr í dómnefndum les bækurnar en ég efast um að það lesi þær jafn vel og æskilegt væri.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þetta er bara gert svo hægt sé að setja fallegan límmiða á nokkrar bækur.
Eygló

3:31 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home