miðvikudagur, júlí 31, 2002

Hin ógurlega Verslunarmannahelgi nálgast

Það er ljóst að þessi stanslausi áróður gegn unglingadrykkju er farinn að gera margt foreldrið ofsóknarbrjálað. Það er svosem gott og blessað að vinna gegn unglingadrykkju - en þessi blessaði áróður er fljótur að snúast upp í andhverfu sína. Skilaboð eins og að það sé líka kærleikur að segja nei og aðrir passlega innihaldsrýrir frasar (sem örugglega bjarga einhverjum en skaða ennþá fleiri) tröllríða öllu og eftir standa foreldrar og spyrja sig: "já, nei? ... ég verð að segja nei af því að forvarnarfulltrúinn í sjónvarpinu/útvarpinu/dagblaðinu segir að þannig sýni ég barninu ást mína." En hvað varð um að tala við börnin sín? Eða jafnvel spyrja sig hvers konar manneskja krakkinn þinn er, hvað krakkinn er líklegur til að gera og hvað ekki. Flestir foreldrar þekkja börnin sín mun betur en forvarnarfulltrúar fjölmiðlanna (Og ef þeir gera það ekki eru þeir það óhæfir foreldar að það er barninu vafalítið fyrir bestu að komast í burtu sem mest). En Íslendingar eru ofboðslega gjarnir á að fordæma allt áfengi og annað slíkt hugsunarlaust í fjölmiðlum af því að það á að gera það. Það veit hver maður sem hefur farið niðrí bæ í Reykjavík eða einhverjum bæja Íslands um helgarnætur að þessar yfirlýsingar eru ekki í neinum takti við hegðun þjóðarinnar. Eða finnst okkur að við séum svona ömurleg?
Nei, við erum bara ofboðslega óheiðarleg við sjálf okkur. Ég hugsa stundum að sumir sem hafa ekki þekkt mig lengi haldi að ég drekki miklu meira en ég geri, ég geri sjálfsagt oft meira úr því en ástæða er til og finnst fátt skemmtilegra en að segja góða fylleríssögu þá sjaldan að tilefni er til. Ekki samt til að sýna hvað ég sé stór kall eða eitthvað slíkt (þó sjálfsagt hafi ég gerst sekur um það einhverntímann). Nei, aðallega af því mér finnst hitt svo ömurlegt. Fólk sem útmálar áfengisdjöfulinn í Kastljósinu og fer svo á barinn á eftir.
En flaska í skúffu er miklu hættulegri en flaska uppá borði. Því flöskur eru furðu mennskar að þessu leiti - ef þær eru óvinir þínir liggja þær í leyni eða ljúga að þér. Málið er bara að flöskur geta ekki talað eins og flestir vita þannig að þú ferð að ljúga fyrir flöskuna. Þú afneitar sjálfum þér og því sem þú gerir og hugsar, fyrst fyrir öðrum og að lokum fyrir sjálfum þér. Endar svo á að ljúga sjálfan þig í gröfina - því hvers virði er manneskja sem afneitar sjálfri sér fyrir sjálfri sér? Aðeins gömul og útjöskuð lygi.

Íslenskt foreldri sest niður með barninu sínu og skipar því sem aðrir sögðu honum að skipa. Barn lærir að það þýðir ekki að tala um annað en má tala um, barn lærir að ljúga. Ekki lærir það að drekka því það er erfitt að læra það sem hvergi er kennt. Loksins þegar það er nógu langt leitt til að segja sannleikann þá stendur það upp, þylur nafnið sitt og eigin alkóhólisma. Væri ekki betra að það hefði bara þorað einhverntímann að segja að nú væri það að fara að drekka? Það er nefnilega fyrsta skrefið í að læra þá list að drekka, vissulega er alkóhólismi sjúkdómur en eitthvað segir mér að ansi margir meðlimir hérlendis séu þar því þeir lærðu aldrei það sem þeir voru að gera.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home