föstudagur, júlí 05, 2002

Hundaást

Ég sá fyrstu – og bestu – mynd Terence Malick, Badlands, upphaflega í kvikmyndakúrsi út í Prag. Kennarinn var Erik S. Roraback, mikill snillingur sem kvaldi okkur með stórfurðulegum heimspekilegum greinum sem var afskaplega erfitt að sjá hvað höfðu með myndirnar að gera. Eitthvað um demanta og tígla og þríhyrninga og svona. En það komu reglulega gullmolar frá kallinum. Einn af þeim var undir lok umræðnanna um Badlands. Við vorum að tala um að þau dræpu pabba Sissy Spacek – en hann spurði hvort það væri ekki fullkomlega eðlilegt. “But he shot the dog, so he must have been evil.” – og þar af leiðandi réttdræpur? Hann glotti við tönn þegar hann sagði þetta og sagði að hann hefði aðallega verið að reyna að koma af stað debati – en það var of seint, tíminn var búinn. En ég var eiginlega alveg sammála honum, hann drap hund dóttur sinnar án nokkurar almennilegrar ástæðu, fullhraustan hund og ekki var hann að skaffa kjöt. Að drepa mann er slæmt, aðrar mannskepnur eru ekki ólíklegar til þess að hafa unnið fyrir því. Að drepa málleysingja (eðlilegar veiðar undanskildar) það segir allt um þitt eigið innræti, ekki þjóðfélagið sem skóp þig. Sem leiðir okkur að Amores Perros, mexíkanskri ræmu um hundaat. Þrjár mismunandi sögur, samtvinnaðar í gegnum eitt bílslys og í öllum sögunum þremur gegna hundar stóru hlutverki. Ekki bara til að tengja sögurnar, heldur segir samband mannana við hundana allt sem segja þarf um mennina. Leigumorðingi, fyrirsæta, atvinnuleysingi, húsmóðir, skrifstofumaður og búðarloka – þetta eru bara merkimiðar, hvernig þau fara með hundana sína kemur upp um þau. Einmitt með þessari áherslu á ferfætlingana kemur myndin niður á eitthvað ótrúlega mannlegt, það eru engar klisjur hérna, í jafn stéttaskiptri og brjálaðri borg og Mexíkó fá allir sömu meðferð frá myndavélinni þó lífið hafi leikið þau misjanlega.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home