föstudagur, júlí 05, 2002

Weirdoar, frægt fólk og gamall Stones slagari

Var í spóluskilaleiðangri í strætó, það var líklega viðeigandi að ég væri að skila spólunni sem fjallað er um í næstu færslu á undan. Fyrst kom strætóinn á nákvæmlega sama tíma og ég, það gerist svona einu sinni á ári. Síðan kom á Lækjartorgi maður sem leit nákvæmlega út eins og þrítugur Stephen King, hálf druslulegur og þekkti alla skrítnu mennina sem komu uppí á leið okkar upp Hverfisgötuna. Eða þeir þekktu hann, hann var ekki beinlínis jafn orðheppinn og tvífari hans, orðaforðinn virtist takmarkast við já og nei. Fyrsti vinur hans var efnilegur súmóglímukappi (hann sagðist vera að fara á æfingu og það var eina æfingin sem mér datt í hug) og svo kom einn sem spjallaði lengi við hann, settist svo fyrir framan mig og tók upp kampavínsflösku og tók sér sjúss. Fullvissaði mig að vísu um að þetta væri ekki alvöru kampavín, ég skammaði hann auðvitað fyrir að vera að drekka einhverja eftirlíkingu og yfirgaf svo vagninn. Skilaði spólunni og mitt í því að ég hugsaði mér til matar hringdi systir mín og spurði hvort ég vildi ekki borða einhversstaðar úti í góða veðrinu. Ég jánkaði og Ruby Tuesday var passlega á milli okkar – ég var uppi við Hótel Esju og hún niðri á Lækjartorgi – og þar voru borð úti, smá rok en franskarnar héldust allar á sínum stað. Ég hleraði viðtal sem Finnur fyrrum Sílikonstjórnandi og nú Fókusskrifari var að taka við Jón Gnarr um nýju myndina hans á meðan systir mín skipulagði eitthvert útivistarbrjálæði með gönguhópnum sínum í gegnum síma. Síðan kom maturinn og að honum loknum ákváðum við að það væri orðið of kalt til að vera úti þannig að við fórum inn og pöntuðum okkur ís.
Að því loknu fór ég á sjöbíó, ég fór einn þar sem ég vissi að mexíkanskar myndir um hundaat væru ekki líklegar til að heilla systur mína.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home