miðvikudagur, júlí 03, 2002

Utanbæjarferð

Dagurinn í dag markaði tímamót í lífi mínu, ég fór í kirkju mammons eftir þögul níu mánaða mótmæli og kraup fyrir framan myndina af Haraldi Erni og reyndi að láta mér detta eitthvað jafnsniðugt í hug og Davíð mundi segja. Annars var ég aðallega að kaupa mér skó. Það tókst ekki frekar en venjulega, fann þarna eitt par sem mér leist á sem var ekki til í minni stærð, sama sagan með þrjú pör í miðbæ Akureyrar um daginn og alls ekki neitt skótau til að tala um í Kringlunni né á Laugaveginum. Skónúmer 43 og 44 greinilega mjög afbrigðilegt fyrirbæri hérlendis, nema það sé ætlast til að við göngum í ljótum skóm. Stærðin á tánum mínum kemur sem sagt upp um hversu mikill lúði ég er innst inni. Musterið mikla olli þó vissum vonbrigðum að sumu leyti, það var ekkert sérstakt vöruúrval sýndist mér, fáar búðir en stórar - og ég gat ekki séð að þetta væri neitt stærra en Kringlan. Og það var varla kjaftur þarna. Aftur á móti er ég ósammála þeim sem hafa verið að tala um að það sé svo vont loft þarna og allt hálf púkó, eiginlega er sá eini sem fær prik hjá mér arkitektinn - svo lengi sem ég þarf ekki að hugsa um reikninginn sem á auðvitað aldrei að gera í almennilegum verslunarleiðangri. Loftið er ágætt sem ég get ekki sagt um Kringluna og eins er þetta bjart og opið en samt ekki jafn öskrandi og Kringlan sem virðist meir og meir byggð utan um McDonald og Dominos. En Kringlan er í næsta póstnúmeri, Smáralind í Kópavogi, og með almenningssamgöngur á steinaldarstiginu eins og raunin er hér á höfuðborgarsvæðinu þá þýðir það að líklega mun Kringlan áfram hafa vinninginn þegar mér finnst of kalt til að fjúka um Laugarveginn.

* Hér skal tekið fram að ekki eru taldar með tvær bíóferðir á Star Wars og Panic Room í Smárabíói utan opnunartíma og það er náttúrulega ekki fullgild verslunarferð ef það er ekki hægt að versla

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home