þriðjudagur, nóvember 19, 2002

And now the childhood memories come flooding back …

Af hverju gerir engin bíómynd eftir Bróðir minn Ljónshjarta? Það þyrfti samt að vera Hollywood en ekki Svíþjóð. Ekki það að ég hafi neitt út á Sverige eða Bergmanna heimsins að setja, aftur á móti þyrfti þetta náttúrulega að vera mynd upp á nokkrar millur. Ég man nefnilega þegar sjónvarpið sýndi einhverntímann sjónvarpsþætti eftir sögunni en ég gat ekki fengið af mér að horfa á þá. Ég sá aðeins í byrjunina, sá af hversu miklum vanefnum þeir væru gerðir og ég vissi að vonbrigðin við að sjá einhverja Brúðubíls-Kötlu í lokin hefðu gert mig þunglyndan í margar vikur. Spurning hvort Lasse Hallström skelli sér ekki í það svo leikstjórinn sé að minnsta kosti sænskur, myndin mætti alveg vera á sænsku líka ef hann fær samt pening fyrir Kötlu sem er minnsta kosti jafn skerí og T-Rex í fyrstu Jurassic Park.

Í einhverju óljósu framhaldi af ofangreindu; af hverju er Stundin okkar með Bryndísi Schram aldrei endursýnd? Ég man eiginlega ekkert eftir henni, ég man bara þennan sannleik: Stundin okkar = besta sjónvarpsefni í heimi. Svo kom einhver óhemju leiðinleg kelling í eitt ár og svo Brúðubílshyskið sem varð til þess að ég sagði endanlega upp æskunni og gerðist unglingur. Lilli api er vissulega holdgerving djöfulsins hér á jörðu. Svo gafst ég upp á að vera unglingur þegar ég sá fram á að það yrði ekki sýnd önnur syrpa af Parker Lewis Can’t Lose. Ekki svo að skilja að ég þykist vera fullorðin – ég er meira svona að ákveða hvað ég eigi að verða næst!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home