mánudagur, nóvember 11, 2002

Bókahorn Gambrans

Næstu tvær bækur sem voru lesnar hér í fjallakofanum voru Fight Club eftir Chuck Palahniuk og Hvíldardagar Braga Ólafssonar. Það passar merkilega vel að fjalla um þær saman í hinum sívinsæla dagskrárlið Bókahorn Gambrans – og á óvenju vel við á mánudegi. Báðar fjalla í raun um þetta kvalatæki andskotans, hversdaginn, og viðbrögð okkar við honum. Sögumaður Fight Club gerir uppreisn gegn honum, sögumaður Hvíldardaga virðist hægt og rólega yfirbugast af hversdagsleika dagana. Eða kannski frekar þeim fáu atvikum sem trufla hversdagsleikann þó takmarkað sé. Þessi yfirþyrmandi hversdagsleiki sem Bragi lýsir er örugglega tímabil sem við höfum öll upplifað, tímabil sem maður hatar fátt meira en spurninguna „er eitthvað að frétta?” Hvernig hann bugast yfir þessu öllu saman var samt ekki alveg sannfærandi. En hversdagnum, honum nær Bragi ótrúlega vel. Fight Club aftur á móti, brilljant kvikmyndahandrit, ekki alveg að virka sem bók. Enda vildi svo skemmtilega til að David Fincher kvikmynduði verkið eins og flestir þekkja og er myndin vissulega miklu betri en bókin – þó vissulega beri að nefna það bókinni til varnar að hún varpar á margan hátt skýrara ljósi á myndina. Hvíldardagar aftur á móti, nei, ég sé Brad Pitt ekki alveg fyrir mér í því hlutverkinu. Sumt er líklega dæmt til að vera bara á bók.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home