föstudagur, nóvember 08, 2002

Já, og núna er loks komið að bókahorninu sem féll niður í þarsíðustu færslu vegna útúrdúrs. Næst er komið af tvöföldum Auster. Ég ætlaði raunar að klára Auster hérna í Tékkó, átti þrjár bækur eftir, en svo varð Mr. Vertigo fórnarlamb grimmilegs niðurskurðar við niðurpökkun áður en haldið var til Keflavíkur og svo þarf kallinn náttúrulega að gefa út nýja bók rétt áður en ég fer. Book of Illusions sem ég efast ekki um að sé góð fyrst Orri bókavörður og bókmenntafræðinemi segir það. Að vísu finnst Orra Taxi Driver góð bíómynd en að öðru leiti er hann einn af þeim mönnum sem vert er að taka mark á þegar að menningarafurðum kemur.
Þannig var að ég kláraði flestar hinar bækurnar í Sölden Týrólaveturinn 97-8, New York Trilogy í skólanum árið eftir og Hand to Mouth í París vorið 2000. En hinar þrjár lágu í bókaskáp og voru einhvernveginn ekki jafn spennandi og hinar. En The Music of Chance og Timbuktu komust sem sagt til Zlín. Það er satt að hvorug er Auster í toppformi, þó The Music of Chance komist oft nálægt. Það besta við hana er hvernig hún breytist hægt og rólega úr enn einni sögunni um stefnulausan mann yfir í hálfgildingis þriller, og það er merkilega mikið af áhugaverðum samtölum í henni, venjulega er Auster ekkert mikið að nota samtöl þannig að ég var helst farinn að fá á tilfinninguna að hann vissi að samtöl væri veikleiki hjá sér og hafi þar af leiðandi sneitt hjá þeim. Sem er raunar ekkert ólíklegt, svo allt í einu finnur maður lykilinn af því hvernig á að skrifa eitthvað og þá er þetta minnsta mál í heimi. Margt sem minnir á Moon Palace en hún er samt ekki jafn seiðandi og hún, ætli hún sé ekki næst á eftir masterpísunum þremur (Moon Palace, In the Country of Last Things og The New York Trilogy), kannski aðeins á eftir The Invention of Solitude og á svipuðum stað og Leviathan. Sú var með öllu skemmtilegri anarkíu en hefði mátt vera aðeins agaðri, þessi er aftur á móti eitthvað agaðasta verk Austers hingað til og það hefur bæði kosti og galla.
Svo er það Timbuktu, saga fyrir fullorðna sem gerist í hausnum á hundi. Ekki beint dæmigert Auster-viðfangsefni og það er kannski vandamálið, hann leyfir sér ekki að vera jafn Austerískur (hmm, nú er ég farinn að sjá af hverju ég varð Auster-fan í Austurríki!) og hann er vanur en fer ekki heldur nógu langt í burtu. Þetta er samt bók sem mig grunar að gæti verið skemmtilegri aflestrar fyrir óinnvígða. En hann hefði mátt leyfa Willie G. Christmas að lifa aðeins lengur, gert hann að meira skáldi, leyft honum að dansa meira þrátt fyrir alla eymdina.

Merkilegt samt hvað sagan rímaði við Bróðir minn Ljónshjarta, ætli norsk eiginkonan sé orðin svona dugleg að kynna hann fyrir norrænum literatur? Fínar bækur vissulega, ekki það, en maður þarf að bera hlutina saman í samhengi. Þegar þú ert búinn að lesa nógu fjandi margar bækur eftir einhvern borgar sig oft frekar að bera þær saman innbyrðis frekar en að bera þær saman við aðra höfunda, a.m.k. ef þú vilt að einhver taki mark á þér. Ég mundi til dæmis aldrei spyrja Gneistann einfaldlega hvort eitthvað Queenlag sé gott (ég veit hvort eð er að svarið yrði jákvætt með svona 0,01 % skekkjumörkum) heldur frekar reyna að halda spurningunni í samhengi þannig að ég fái einhverja tilfinningu fyrir hversu gott þetta lag er miðað við önnur Queen-lög. Ekki það að ég spyrji hann mikið, enda það mikið Queen-fan sjálfur, eða var öllu heldur, er orðinn frekar latur að spila snilldina. En þetta kemur í skömmtum oft, ég á sjálfsagt eftir að kyrja Bohemian Rhapsody með gamlingjunum á elliheimilinu einn daginn. Þori því ekki núna enda staddur í Móravíu, aldrei að vita með hrepparíginn. Þeir drekka sko Slivovice hérna en ekkert Becherovkusull frá Bóhemíu. Ég alveg eins og ræfilskrakkinn í Cheeriosauglýsingunni finnst bara bæði betra. En sumt borgar sig ekki að láta út úr sér í fjölskylduboðum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home