föstudagur, nóvember 15, 2002

Sleepless in Reykjavik

rant eitt

Verður maður ekki að byrja á Mikka ref? Eiginlega er það merkilegasta við þetta meinta rifrildi þeirra að þau eru bæði fjarstödd. Mikki minntist, þegar hann er aðallega að tala um áhrif ritdóma á sig, í sakleysi sínu á að Úlfhildur væri vitleysingur og kjáni og kallar hana hálf ástúðlega „sitt fífl”. En Kistan ritskoðaði strákinn þannig að núna eru væntanlega flestir búnir að ímynda sér hinar svæsnustu svívirðingar (sem Mikki væri vissulega fær um) en er meira svona eins og ég þegar ég var ekki sáttur við að mamma hefði fisk í matinn – og þótti nú ekki orðljótt barn þó matvandur væri ég. Hér er það sem öllum úlfaþytnum olli, fundið eftir nokkra leit á heimasíðu Mikaels; (undir dagbok)

- Hvað með gagnrýni?

„Ég reyni að taka henni persónulega nema þegar hún kemur frá Úlfhildi Dagsdóttur því hún er vitleysingur. Allir höfundar verða að hafa svona einn kjána til að láta fara í taugarnar á sér og hún er mitt fífl. Verst að ég á ekki mynd af henni til að hengja fyrir ofan skrifborðið mitt. Vonandi gefur hún mér aldrei góða dóma því ég nærist alltaf á þessum eina sem gefur mér slæma. Síðast, þegar Heimsins heimskasti pabbi kom út, var það hún og einhver á Mogganum (man ekki hvað hann heitir) en það er þetta fólk sem heldur mér á jörðinni. Dómarnir frá þeim gera mig einbeittan og hörkulegan á svipinn en hinir fá mig til að brosa eins og einhver kjáni. Enda er ég bara mannlegur og vill leyfa þessu að snerta mig og hafa áhrif á mig, rétt eins og allt annað.”


Á meðan gerði Úlfhildur svo sem ekkert af sér nema að finnast bókin hans Mikaels ekkert sérstaklega vel skrifuð. Það er svo aftur á móti Ágúst Borgþór sem ýjar að því að Úlfhildur og RÚV hefðu verið ófagmannleg og Soffía Auður Birgisdóttir sem svarar því réttilega svo að ef þetta siðferði væri haft að leiðarljósi þá gætu rithöfundar auðveldlega dæmt gagnrýnendur sem þeim þóknast ekki úr leik. Þetta tókst samt því miður flestum að túlka þannig að Mikki hefði verið að gera þetta sérstaklega til að dæma Úlfhildi úr leik (nokkuð sem ekki eru þekkt dæmi svo ég viti úr ísl. bókmenntasögu) sem gagnrýnandi þegar Mikki talar um að hann nærist á slæmu dómunum hennar. Er þetta að dæma ritdæmanda úr leik? Spurning hvort Úlfhildur birti ekki góðan dóm um næstu bók og valdi Mikka greyinu áralangri ritstýflu. Vona ekki en merkilega öflug ritdeila miðað við að báðir aðilar hafa verið fjarverandi frá því í upphafsatriðinu á meðan aðrir hafa rifist um hvort hafi rétt fyrir sér. Spurning hvort þetta sé ekki efni í skáldsögu? Eða jafnvel kvikmynd, Sleepless in Reykjavik þar sem Úlla og Mikki fallast í faðma í Hallgrímskirkjuturni.

Hvað persónur þessar ástarævintýris varðar þá finnst mér bæði ágæt. Úlla að vísu dálítil kvenremba miðað við grein hennar um íslenskar bókmenntir árið 2000 þar sem ég rakst ekki á eina bók eftir konu sem neitt slæmt var sagt um og einhvernveginn tókst henni að finnast Myndin af heiminum full af kvenrembu og sakaði ýmsar aðrar bókmenntir eftir karla um að þar vantaði hið kvenlæga. Einum karli hrósaði hún jú (fyrir utan Gyrði sem er svona mestmegnis hvorugkyns) og það fyrir að skrifa bók þar sem hann sjálfur var kona, karl og hvorugkyn. Sem er fínt og vissulega mjög athyglisvert og spennandi hjá Sigurði en það geta nú varla allir karlarnir endalaust verið að skrifa skitsófrenískar bækur þar sem kven-hann talar við karl-hann um það sem hvorugkyns-honu fannst. Þá hættir það nefnilega að vera frumlegt og ferskt. Og þó þessi bók Péturs illi mér vonbrigðum – miðað við allt umtalið og miðað við hvað Pétur er góður höfundur – þá man ég ekki eftir slíku og get vart ímyndað mér annað en að maður sem nennir að þýða Madame Bovary sé neitt annað en algjör rauðsokka inn við beinið. Svona svipað og Úlfhildur að nenna endalaust að kenna kúrsa um Jane Austen.
Svo er það Mikki brjálæðingur. Ég á það sameiginlegt sumum að haft lítið álit á Mikka eftir auglýsingaherferð hans með Falskan fugl. Svona er Ísland í dag var inntakið. Sem það er náttúrulega ekki. Ísland er ekki Manhattan með skotbardögum og eiturlyfjasölum á hverju horni – þó það séu vissulega brot af Manhattan og fleiri borgum hér og þar. Efast sjálfsag um að sjálf Manhattan standi alltaf undir eigin ímynd, að minnsta kosti sá ég engar byssur og engin seldi mér dóp. En kannski voru bara allir í sumarfríi. En svo las ég bókina í samtímabókmenntum árið eftir, hún er ágæt. Einfaldlega saga um geðveikan strák sem lendir í dópi og gerir allan fjandann af heimskulegum hlutum. Í raun hálfgerð hryllingssaga úr firrtu þjóðfélagi. Þegar maður er búinn að ná suðinu úr eyrunum um að þetta sé eitthvað voða raunsætt þá fer maður að hafa gaman að kraftinum og látunum og stundum verður hún jafnvel barasta rómantísk eins og Ástráður benti okkur kímandi á þegar við í bekknum vorum að reyna að koma orðum að hvað hefði helst komið okkur á óvart. Svo kom Saga af stúlku sem er ekki alveg jafn vel skrifuð en samt miklu betra verk. Það er byggingin og hugmyndirnar sem eru að þrælvirka, það er miklu minna brjálæði í henni en einhver einkennilega sorgleg lýrík. Gæti alveg verið Nick Cave-lag. Hef ekki enn nennt að lesa Heimsins heimskasta pabba en langar að lesa Samúel þegar ég kemst í það. Smásagan HKL sem var held ég ritskoðuð einhverntímann eins og kistugreinin er líka með því besta sem hann hefur skrifað, ekkert í því til að ritskoða svo sem (Halldór var út úr heiminum og það vissu allir, það er á engan hátt verið að gera lítið úr honum) en það er frekar eins Falskur fugl sé ennþá að fylgja honum, það hefði enginn ritskoðað þessa smásögu frekar en umrædda grein nema af því þetta er Mikael Torfason. Það fyndna við Mikka er samt að flestar þær greinar, viðtöl og pistlar frá honum eða um hann er alls ekkert svo gróft. En það eru alltaf góðar fyrirsagnir þarna einhversstaðar. Sem eru stuðandi þegar þær eru teknar úr samhengi.
Það er líka merkilegt að bækurnar hans hafa ollið miklu minna fjaðrafoki en það sem hefur birst á netinu og í dagblöðum. Þó hafa bækurnar selst þokkalega og ef oft miklu meira sjokkerandi en það sem birtist á netinu og í blöðum – því Mikael skrifar um karaktera sem eru töluvert meira sjokkerandi en hann sjálfur. En fólk les sem betur fer bækur held ég nokkuð vel ennþá. Gallinn við það sem birtist á netinu og í dagblöðum er að þar rennir fólk yfir greinarnar. Hættan er að eitthvað eitt orð eða setning sem Mikki lét út úr sér verður svo til þess að því svelgist á morgunmatnum og verður eftir atvikum reitt. Auðvitað svelgist þessu fólki ekki á morgunmatnum þegar það er verið að tala um innrásir í Írak eða fjöldamorð í Palestínu eða hungursneið í Afríku. En að kalla einhvern kjána? Gvuðminngóður!
En örvæntið ekki, Mikki og Úlla eru uppí Hallgrímskirkjuturni núna. Ég var búinn að lofa að kjafta ekki en finnst bara svo sæt tilhugsunin um Mikki að spyrja Úllu hvort hann megi ekki skoða þetta piercing aðeins betur að ég varð bara að deila því með ykkur.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home