miðvikudagur, nóvember 13, 2002

Pizza 67 og Jurrasic Park

Einu sinni samt, believe it or not, var Pizza 67 toppurinn. Það var árið 1993 og við Starri vorum búnir að kaupa okkur miða á Jurassic Park í einni Reykjavíkurferðinni, fórum með pabba og mömmu á 67 sem einhverjir Reykvíkingar sem við höfðum hitt dauðadrukkna niðrí miðbæ Akureyrar höfðu mælt með (Þá var 67 ekki enn komið norður, gott ef Greifinn var ekki eini pizzastaðurinn). Pizzan var dáltið lengi á leiðinni þannig að við þurftum að borða eldheita pizzuna (óvenjuheit því við vorum búnir að segja þjóninum að flýta sér sökum bíósýningarinnar og pizzan var beint úr ofninum) í bílnum þessar fimm mínútur sem það tók pabba að skutla okkur í Bíóborgina sálugu á meðan mamma passaði borðið. Besta pizza sem ég hafði smakkað fram að því og sú eina sem ég hef nokkurn tímann brennt mig á með troðfullan munninn. En eins og með Jurrasic Park þá voru framhöldin ekki nálægt því að vera í sama gæðaflokki og ferð I. Þó var ákveðin ferð á 67 í Dalvík að vísu sérlega eftirminnileg þó ekki muni ég hvernig pizzan sjálf bragðaðist. Og jú, pizzan sem bjargaði mér frá hungurmorði á Ísafirði út af því að pabbi hafði ranglega fullyrt að það væri hægt að kaupa mat á ferjunni – sem varð til þess að við stoppuðum ekki neins staðar á leiðinni, ég hjólað í vinnuna morgunmatslaus klukkan sjö um morguninn, unnið á fullu (eða verið í fótbolta á fullu, þetta var nú einu sinni hæstvirt Umhverfisdeild Akureyrarbæjar – sem vel að merkja hljómaði ótrúlega important þegar ég þurfti að þýða cv-ið mitt yfir á ensku. The Enviromental Center of Akureyri. Verst að þá var ég ekki enn komin með Tobbacco and Licquer Store of the State of Iceland) til hádegis og farið þá heim án þess að borða og beðið eftir þessari helvítis ferju í ofvæni sem faðir minn fullyrti að væri hægt að fá heitan mat á. Jú, það var ein afskaplega ræfilsleg samloka sem ég gleypti í einum bita, komum svo til Ísafjarðar seint um kvöld og allir veitingastaðir lokaðir. Ég blaða örvæntingarfullur í símaskránni á hótelherberginu, prófa að hringja, þeir eru með heimsendingu, ég þurfti að beita mig hörku til að faðma ekki saklausan pizzasendilinn. Merkilegt að ekki merkilegri veitingastaður geymi svona margar skondnar minningar ... og þó kannski ekki nema von þegar þeir eru með stað í hverju einasta krummaskuði á landinu, eða voru að minnsta kosti þegar veldið stóð sem hæst – og líka í Prag og Köben minnir mig.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home