mánudagur, desember 02, 2002

Gleymdir snillingar

Það á bæði við um höfund og sögupersónu viðtalsbókarinnar Talks With T.G. Masaryk, Karel Èapek og T.G. Masaryk. Èapek var fremsti höfundur Tékklands á millistríðsárunum, sænska akademían var að íhuga að afhenda honum nóbelsverðlaunin en Svíar eru nú einu sinni svo sjálfstæðir og hlutlausir að þeir voru dauðhræddir við að afhenda andfasískum gyðingi verðlaunin af ótta við að Adolf myndi eitthvað æsa sig. Þannig að þeir sendu honum skeyti og spurðu hvort hann væri ekki til í að skrifa eitthvað sem mundi ekki móðga neinn svo þeir gætu nú splæst verðlaunum á hann óhræddir. „Því miður, ég er þegar búinn að skila inn doktorsritgerðinni minni” var svarið. Stuttu seinna afhentu verðandi Bandamenn nasistum Tékkóslóvakíu á silfurfati og lífsþrek Èapeks fjaraði út um leið og frelsi landsins sem hann hafði verið samtíða. Höfundarferill Èapeks er nefnilega nokkurnveginn samhliða blómaskeiði Tékkóslóvakíu sálugrar, hann er fæddur 1890 og er fulltíða um það leiti sem Tékkóslóvakía verður til sem land, deyr þegar hún er fallinn í hendur nasista – og seinna kommúnista. Þess vegna er hann tilvalin til að segja sögu fyrsta forseta landsins, landsföðursins Tomaš Garigue Masaryk. (Millinafnið tók hann er hann giftist Charlotte Garigue). Þeir voru vinir, lykilmenn í hinum fræga föstudagshring helstu menntamanna landsins. “Talks” er kannski ekki réttnefni, Èapek er algerlega fjarverandi í prósanum, hann hlustar bara og skrásetur, Masaryk segir söguna sjálfur í fyrstu persónu. Það sem mætti skoða sem forvitnilega þroskasögu menntamanns (og stjórnmálamanns helst í hjáverkum) tekur svo skyndilega mikið stökk þegar Masaryk er 64 ára og fyrri heimstyrjöldin brýst út. Hann er erlendis þegar það gerist, flestir hefðu bara beðið stríðið af sér og sest svo í ruggustólinn af því loknu með sinn ellilífeyri. En Masaryk ákvað þess í stað að gerbreyta landakorti Mið-Evrópu. Ferðaðist allt stríðið, byggði upp sambönd og talaði máli Tékkóslóvakíu, lands sem aldrei hafði verið til sem slíkt. Og um leið máli Póllands og Júgóslavíu, í raun fyrir því landakorti Mið-Evrópu sem við ólumst upp með. Hann fór til Rússlands og tókst, í miðri rússnesku byltingunni, að búa til her úr tékkneskum stríðsföngum til að berjast gegn keisaradæminu hvers merkjum þeir höfðu upphaflega farið í stríðið undir. Varð fyrsti (fyrri) forseti lýðveldisins, dó stuttu áður en það leið undir lok. Benes tók svo við en gat lítið aðhafst þegar áðurnefndir bandamenn notuðu landið til að friða Hitler. Og eftir fasistann kemur kommúnisminn (eftir stutt valdaskeið útlagastjórnar Benes), bæði jafn fjarri Masaryk og Èapek, sem þrátt fyrir um margt afar ólík lífsviðhorf (Masaryk var til dæmis ólíkt trúaðri en Èapek) áttu það sameiginlegt að hallast að miðjunni, miðjunni þar sem almenn skynsemi ræður ríkjum í stað öfga kommúnisma og fasisma. Það er eiginlega hálfvonlaust að finna leið til að útskýra þetta á íslensku enda miðjan alltaf verið fjarverandi í stjórnmálum landsins. Hentistefna Framsóknarflokksins fellur ekki þar undir. Og svo þarf maður víst bráðum að fara kjósa einhvern af þessum vitleysingjum? Mitt atkvæði er á lausu, any buyers? Maður verður náttúrulega blankur þegar maður kemur heim og svona … svo get ég ómögulega séð neinn marktækan mun á þessu jakkafataliði. Jæja, ég lofa sauðtryggum lesendum (vona að það sé rétt hjá mér að þetta sé í fleirtölu) að ég sleppi allri pólitík næst, tja, að minnsta kosti íslenskri pólitík. Það er nú alltaf gaman að spjalla um landbúnaðarflokkinn í Kuala Lumpur til dæmis.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home