sunnudagur, mars 23, 2003

Besta erlenda mynd:

Þessi flokkur kom langmest á óvart. Það voru nefnilega aldrei þessu vant ansi margar erlendar myndir sem höfðu vakið töluverða athygli áður en tilnefningarnar voru tilkynntar – engin þeirra var á meðal hinna tilnefndu. Almodovar-myndin Hable con Ella var tilnefnd fyrir leikstjórn og handrit og hin yndislega mexíkóska Og móðir þín líka (Y Tu Mama Tambien) eftir Alfonso Cuaron fyrir handrit - en þær voru ekki tilnefndar af eigin löndum, stundum eru það aðeins reglum akademíunnar en ekki vali hennar um að kenna. Hefði til dæmis Ísland ekki átt betri séns með 101 Reykjavík heldur en Englana? Við eigum að minnsta kosti óvenju góðan séns ef við höfum vit á að senda Nóa, ég veit ekki hvort svíar höfðu vit á að senda Lilja-4-ever sem er ekki bara áhrifamikil hryllingssaga um illsku mannsins heldur líka inná milli ferskandi óður til lífsgleði hans. Ég man bara að þeir gengu fram hjá Moodyson fyrir síðustu mynd hans, hina meistaralegu Tilsammans, fyrir hina vissulega ágætu Jalla Jalla. Einnig hefur Gullborgin brasilíska verið hlaðin lofi á hátíðum og samkvæmt bresku akademíunni var Stríðsmaðurinn besta breska mynd síðasta árs og sú er á indversku. En þær sem tilnefndar eru hefur maður lítið heyrt um nema Maður án fortíðar. Sú er ágæt en samt full erkitýpískur Kaurismaki. Kaurismaki er fínn en í Maður án fortíðar eru skrítnir Finnir settir innámilli jafnskrítinna Finna og allir með sama grafalvarlega húmorinn. Sem er fínt en það vantar samt þetta skrítin-fíll-í-postulínsbúð element sem til dæmis Leningrad Cowboys Go To America hafði. Samt held ég að Aki hafi þetta. Verst að hann ætlar að skrópa í mótmælaskyni þannig að vonandi verður einhver Leningradkúreki á staðnum til að ná í styttuna.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home