sunnudagur, mars 23, 2003

Besta mynd:

Hér er ákveðið vandamál, það er engin til að halda með – eða á móti. Það eru allar myndirnar góðar án þess þó að nein kveiki í manni. The Pianist er mjög hrá og það er bæði styrkur hennar og veikleiki, The Two Towers líður aðeins fyrir að vera miðkaflinn, brilljant sem slíkur en takmörkuð sem stök mynd. Gangs of New York var góð og hefði kannski kveikt í mér ef við hefðum verið í betri sætum, það á að banna að selja í fremstu sætin í þessum litlu sölum. Chicago kom mér á óvart, ekki djúp kannski en það er líka ádeilan í þessu öllu saman, höfðað til lægstu hvata áhorfenda um leið og hún er ádeila á þá. Sem gengur vel upp en gerir myndina ansi hjartalausa ef John C. Reilly er undanskilin – og hann leikur jú ósýnilega manninn. Svo er það The Hours sem er um margt góð, vel leikin og allt það en það er samt eitthvað verulega að bögga mig við hana. Líklega það að vissir karakterar eru að drepast úr sjálfsvorkun. Kidman og að einhverju leiti Streep hafa kannski efni á því, Moore og sérstaklega Harris (sérstaklega sem krakki) eru einfaldlega fyrirsjáanlegir vælukjóar. Það að vera samkynhneigður á röngum tíma eða vera að deyja úr alnæmi er örugglega ekkert auðvelt en það er ekki afsökun fyrir algjörum skorti á manndómi, því miður hefur maður á tilfinningunni að kvikmyndagerðarmönnunum finnist það. Helst að Claire Danes lífgi uppá myndina, sem og ástkonur Woolf og Streep – en því miður eru þær persónur ekki á tjaldinu nema örfáar mínútur.
En hvað um það, styttan fer væntanlega til Chicago, engin myndana finnst mér í raun verðug. Það voru þó nokkrar myndir á þessu ári. Insomnia, sérstaklega synd að Pacino fékk ekki tilnefningu, Minority Report, Adaptation, About Schmidt, The 25th Hour og jafnvel Punch-Drunk Love. Plús Lilja-4-ever og Y tu mama tambien. Þrátt fyrir þessar myndir er niðurstaðan samt sú sama og í fyrra, frekar slappt bíóár. Sem er synd því eftir gott ár 98 fylgdi árgangurinn 99. Að Matrix undanskilinni var árið rólegt framan af en síðan komu Sixth Sense, Fight Club, Magnolia, American Beauty, Being John Malkovich, The Insider, Man on the Moon og Boys Don’t Cry og það virtist eitthvað stórkostlegt og splunkunýtt og spennandi vera að gerast í draumaborginni. Árið eftir gerðist það meira að segja að íslenskar myndir fóru að verða góðar. En það sem maður vonaði að væri bylting var víst bara bóla, einstaka snilld síðan þá vissulega eins og Crouching Tiger, Hidden Dragon, Memento, Donnie Darko, Amelie, You Can Count on Me, Lord of the Rings og fleiri sem ég er að gleyma en heilt yfir öguð meðalmennska. Kannski verður árið í ár betra. Ang Lee með Hulk, Matrix 2 og 3, Lord of the Rings og loksins ný mynd eftir Peter Weir, Master and Commander. En mestu snilldarverkin gera sjaldnast boð á undan sér þannig að ég get lítið annað en beðið færis að skrifa sambærilegar hugleiðingar að ári. En í kvöld verður mulið snakk og barist um veðbankann heima hjá Stöðvar 2 áskrifanda í Grafarvogi ef ekkert klikkar.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home