sunnudagur, mars 23, 2003

Besta leikkona:

Það hefur mikið verið haft á orði að þetta sé eitt besta ár fyrir leikkonur í manna minnum. Ég get því miður ekki sagt að það endurspeglist í tilnefningunum hér. Virginíu Woolf-hlutinn er langsterkastur í hinni þrískiptu The Hours og Nicole Kidman örlitlu sterkari en hinar aðalleikkonurnar tvær. Það eru líka allar líkur á að Nicole vinni þessi verðlaun þó ég voni frekar að hún vinni þau seinna fyrir snilldarframmistöðu eins og í Moulin Rouge (þó vonandi í mynd sem er ekki jafn vond og Rauða myllan) heldur en hér. Helst að Reneé Zellwegger (Chicago) eða Julianne Moore (Far From Heaven) geti stoppað hana. Far From Heaven hef ég ekki séð en Zellwegger sem mér fannst einu sinni vanmetin (Jerry Maguire) er núna að nálgast það að vera ofmetin. Diane Lane á eftir að gjalda fyrir það að engum virtist finnast myndin Unfaithful góð þó öllum finndist hún stórkostleg í henni. Langbesta leikkona ársins er þó Salma Hayek sem Frida. Myndin var köflótt en góð en ástríðan, krafturinn og mannviskan sem geislaði af Sölmu var ósvikinn. Þegar ég má loks vera að því að þiggja öll þessi heimboð sem ég hef í Hollywood þá verða hún og Edward Norton fremst í flokki leikarapara sem ég mundi kíkja í kaffi til – ásamt Paul Newman & Joanne Woodward og Tim Robbins & Susan Sarandon. En óskarstyttan endar á heimili Nicole. Sem er náttúrulega single og það er jákvætt …

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home