föstudagur, febrúar 20, 2004

Bókahorn Gambrans gengur aftur í barndóm

Ég man eftir bókinni, hún eldist betur en myndin. Sagan endalausa eftir Michael Ende. Ef ég væri skikkanlegri í þýsku myndi ég vilja þýða allt eftir kallinn, þessar tvær sem út komu orðnar gjörsamlega ófáanlegar, mig langar að lesa Mómó (fullu nafni Mómó: eða Skrítin saga um tímaþjófana og barnið sem frelsaði tímann úr klóm þeirra og færði hann mannfólkinu á ný) aftur, man eitthvað lítið eftir henni enda langt síðan hún var lesin. En Söguna endalausu las ég bæði sem krakki og svo aftur á menntaskólaárunum – eða rétt eftir þau. Ég man að ég hef ekki fengið jafn mikla vitrun við að lesa neina af gömlu barnabókunum aftur nema þessari og Elsku Míó minn. Það er svo margt í manni sem er þarna út af þessum tveimur bókum. Sagan endalausa tengist einna helst því trúarlega, barnslega keisaraynjan er eina guðshugmyndin sem gengur út á einn alvaldan guð sem gæti gengið upp í mínum huga. Því hún er í raun siðlaus – eða öllu heldur, þykir jafn vænt um allar verur, hvort sem þær eru góðar eða vondar – og það er gagnkvæmt. Seinni hlutinn sem mér fannst mun síðri þegar ég las hann sem krakki er aftur á móti sá sem vinnur meira á og stendur algjörlega jafnfætis núna. Þessar hugleiðingar um óskirnar, það hvernig þær eru orsök allrar okkar ógæfu ekki síður en allrar okkar hamingju eru ólíkt áhrifameiri þegar þær eru ekki meltar í gegnum barnslegt sakleysi.
En mig langar að eiga þessar bækur hans Ende, þannig að ef einhver skransali les þetta og langar að losna við þær er honum bent á að hafa samband.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home