þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Þriðjudagsbíó

Fór á bíó um helgina í fyrsta skipti í ár, og annað og þriðja líka. Jamm, maður verður að nota bæjarferðirnar – og svo var aldrei þessu vant eitthvað með viti sem ég átti eftir að sjá í Sauðárkróksbíó þegar ég kom til baka.

Það er erfitt að segja ástarsögur. Rómantískar gamanmyndir eru vel að merkja nokkuð annað, það er svona smá ást en þess á milli er hægt að halda myndinni uppi á bröndurum. Eða hasar eða melódrama, einhver að deyja og svona. En það að hafa ástina eina og sér í forgrunni er reglulega erfitt – og raunar mjög sjaldan reynt. Lost in Translation reynir, tekst einstöku sinnum – sum atriðin eru hjartnæm og frábær – en myndin sjálf vinnur meira á stigum frekar heldur en að vinna mann alveg yfir. Til þess er margt við sögupersónurnar alltof tilgangslaust – þau eru oft asnalega vitlaus, ekki nóg með að vera í erlendri stórborg þá virðast þau líka eiga næg fjárráð og tíma hafa þar af leiðandi enga afsökun fyrir því að fá ekki allt það út úr Tókýó sem hægt er. En nei, best að hanga uppá hótelherbergi á bömmer yfir engu sérstöku. Fyrir utan hálf kjánalega brandara oft sem ganga út á það að, jeremías! – það tala ekki allir ensku hérna. Góð útlistun á þeim þætti myndarinnar hjá æsifréttablaðamanninum hér. En myndin er oft mjög fín þegar þau tvö eru ein saman, sambandið sem slíkt unnið af skemmtilegri hlýju og næmni. En það hefðu mátt vera skemmtilegri einstaklingar í þessum samböndum. Það besta við myndina er þó vissulega leikararnir tvö, þá sérstaklega Scarlett Johanson. Bill Murray er góður enda búin að vera frábær undanfarið eftir að hafa sagt að mestu skilið við vinsældabíóið en það er vitleysa að þetta sé hans stærsti leiksigur eins og maður hefur heyrt út um allt – baráttan um þann heiður er á milli minni hlutverka sem Herman Blume í Rushmore og búktalarans óborganlega í The Cradle Will Rock. En það var ein mynd sem þessi minnti mig alltaf á, aðallega fyrir það að Lost in Translation nær aldrei sömu hæðum og sú mynd – Before Sunrise. Gerist sömuleiðis í erlendri stórborg sem verður einskonar eyja fyrir tvo elskendur (í mjög víðri merkingu) en karakterarnir í Before Sunrise og hlýjan og húmorinn sem skín í gegn, svo ekki sé talað um hvernig Vínarborg er gædd lífi, gerir Before Sunrise að svo miklu betri mynd. Eitt til þess að velta fyrir sér að lokum – hvern ætli Bill Murray sé að leika? Því ef þetta er ekki sjálfsævisögulegt þá veit ég ekki hvað. Sofia litla inná hótelherbergi á meðan pabbi er að vinna, gamall lífsþreyttur leikari sem nær einhverju einkennilegu kontakti við stelpuna ... Martin Sheen, Marlon Brando eða Al Pacino jafnvel? Erfitt að segja. Svo ungi eiginmaðurinn, hot shot ljósmyndarinn. Karakterinn ekkert mjög ólíkur því sem maður gæti ímyndað sér Spike Jonze sem hún er rétt nýskilin við.

Svo var það Cold Mountain, þar er það ástarsagan sem er að klikka. Þau Jude Law (þó Law sé í vitlausu hlutverki, það er bara ómögulegt að ímynda sér hann sem bældan – þetta var nú einu sinni eini maðurinn sem gat leikið Ástarvélmennið Gigalo Joe) og Nicole Kidman leika ágætlega en aðalpersónurnar tvær eru alltof flatar til að sú saga virki almennilega. En þrátt fyrir það er myndin merkilega góð, einfaldlega af því að hver einasta aukapersóna er frábær. Hvort sem þær eru kómískar eða tragískar, í stóru eða litlu hlutverki. Það er eiginlega best að njóta myndarinnar með því að nota aðalpersónurnar sem sögumenn um allt þetta skrautlega persónugallerí. Það fer að vísu lítið fyrir aukapersónunum í upphafi ef undan er skilin Donald Sutherland sem pabbi Kidman, en svo bætist við Renee Zellwegger í líklegri óskarsrullu, Brendan Gleeson sem pabbi hennar, Natalie Portman – sem ég ætlaði ekki að þekkja fyrst – sem einmana ekkja, Philip Seymour Hoffman sem óendanlega breyskur prestur og Giovanni Ribisi – sem fékk lítið að gera í Lost in Translation – sem hillibilli dauðans eru öll að brillera. Að auki einhver kella að leika góða og skemmtilega norn og eitt illmennið er yndislega sadískur. Aðalillmennið á aftur á móti eitt besta atriði myndarinnar þegar hann gleymir eigin illsku í augnablik og syngur með sorgaróð flækinganna (einn þeirra einmitt leikin af söngvaranum í White Stripes).

Að lokum var það svo önnur epík, The Last Samurai, í Sauðárkróksbíói. Traust en eiginlega ekki mikið meir. Áhugaverð saga að mörgu leyti, þeim tekst að gera þráðinn þannig úr garði að það er ekki alveg út úr kú heldur bara hreinlega alveg rökrétt að Tom Cruise sé að væbblast þarna í Japan 19 aldar. En sagan sjálf gengur að sumu leyti ekki alveg upp – fyrir hverju í fjandanum eru samúræjarnir að berjast? Fortíðinni? Hefðunum? Líklega gæti þetta verið uppáhaldsmynd Tryggva skólameistara. En skemmtileg írónía þó í því að tæpri öld seinna var þessari nútíma hertækni sem Kaninn seldi Japönum beitt á Kanann sjálfan. En málið með The Last Samurai er raunar það að athyglisverðastu söguna fáum við aldrei að sjá, aðeins heyra um. Fortíð Algrens, þar sem hann virðist hafa fengið álíka ást á indjánum en leitt þá svo til slátrunar. Þar er mun áhugaverðari saga sem því miður er að mestu ósögð. Það einkennilega við báðar þessar myndir, Cold Mountain og The Last Samurai, er svo það hvernig það er sterk ádeila á það hvernig hvíti maðurinn undirokaði svarta og rauða – en auðvitað er þessi sami hvíti maður í aðalhlutverki.

En semsagt, 3 myndir, frábær móment í öllum en eitthvað sem vantar alls staðar. Það sem situr eftir er einfaldlega það að þær hefðu allar getað verið frábærar – því miður er enginn þeirra það – allar ná þó því að vera góðar.

Þó einhver sameiginlegur þráður sem rennur í gegnum þær, sérstaklega forvitnilegt að bæði Ed Zwick og Anthony Minghella eru að vissu leiti að setja út á stríðsbrölt Bush í myndum sínum - en það segir sitt um stöðu mála þar að þeir geti ekki komist upp með að gera það nema með því að láta myndir sínar gerast á þarsíðustu öld.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home