mánudagur, febrúar 23, 2004

Sunnudagsgöngutúr

Fyrir einu ári og einum degi síðan var ég nýkominn úr vísindaferð í Edduna þar sem við Björgólfur reyndum að komast að niðurstöðu um það hvað gerði bók góða. Síðan tók ég, Kiddi, Valur og Rúnar smákrók á leiðinni í partí og komum heim á Framnesvegi að sjússa Slivovice, Absint og Bekkerovku – ég var í skrítnu hugarástandi því þetta var að verða búið.
Jamm, í dag á ég nefnilega eins árs útskriftarafmæli. Ekkert partí, enda erum við öll fjögur sjálfsagt dreifð um víðan völl. En ég er búin að vera bókmenntafræðingur í eitt ár. Fyrir ári síðan var ég nýlega kominn heim, búin að leggja eitt skrímsli en annað var um það bil að fara að stækka út fyrir allan þjófabálk. Jamm, um leið og ritgerðarskrímslið hætti að stækka þá fór yfirdrátturinn að hækka.
Lengst af var prófskírteinið ódrepandi vörn gegn öllum atvinnutilboðum, sannkallað kryptonít. En veturinn hér á Króknum hefur vissulega leyst úr því í bili. En ég man að ég lofaði því hér fyrir ári að setjast niður og rifja upp af hverju ég hefði nú verið að þessu. Kominn tími til að standa við loforð?
Skáldadraumar? Já, vissulega. Ískyggilega algengt, svo algengt að eftir smá tíma fer maður að hafa hljótt um það. Það er sjálfsagt ennþá aðaldrifkrafturinn – en draumar eiga það til að flækjast. Síðan undir lokin, þegar ég var að berjast við blessaða ritgerðina, þá fór ég virkilega að fara að hafa áhyggjur á greininni sjálfrar hennar vegna. Þegar ég þóttist vera búin að sía út allt kjaftæðið, finna leiðir fram hjá sprengisvæði Almenns kressisma og hinni eilífu minnimáttarkennd hugvísinda gagnvart raunvísindum. Þá fór ég að sjá þetta sem eitthvað miklu meira en bara undirbúning fyrir skriftir – biðtíma sem ég skammtaði mér út af því mér fannst ég ekki vera tilbúin strax til þess að loka mig aleinn inní herbergi að skrifa. Sá draumur er vissulega enn til staðar og er vissulega miklu meira en draumur. En bókmenntafræðin, hún er viss aðferð til þess að skilja heiminn. Setja hlutina í samhengi. Finna dramatískt samhengi í hlutunum, tengja. Tengingarnar eru kannski það mikilvægasta, hvernig bækurnar og listirnar gegnsýra lífið og eru gegnsýrðar á móti. Sumt af þessu hefði kannski líka verið hægt að læra í sálfræði eða heimspeki – en í sálfræði er alltof oft verið að gera hluti sem eru ekki annað en eðlileg viðbrögð að sjúkdómum og í heimspeki eru fræðin að vissu leyti of tær – hún á það til að gleyma þessum mannlegu breyskleikum sem listin snýst alltaf um á endanum, er alltof upptekin af frummyndunum í stað eftirmyndanna – því sem upphaflega kveikti þó hugmynd Platons.
Fordómar? Örugglega. En mér finnst sálfræði og heimspeki spennandi greinar, sagnfræðin dregur endalaust meira í mig – en þetta er kannski það sem ég sé helst af þeim. Það eru jafnvel verri hlutir en þessir sem ég sé að bókmenntafræðinni – en ég er búin að finna leiðir fram hjá þeim, a way to cut the crap. Þær leiðir eru örugglega líka til í heimspeki og sálfræði eins og þeir sem eru að skrifa af viti um þær greinar geta örugglega vitnað um.



0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home