föstudagur, júní 11, 2004

Danmörk - C - riðill

Baráttan um annað sætið verður hvergi jafn spennandi og í þessum riðli – það er erfitt að sjá hvað skilur Norðurlandaþjóðirnar tvær að. Þó held ég Danirnir hafi það, þeir fara langt með að vera jafn harðir og Svíarnir og eru ólíkt meira skapandi. Leikaðferðin er óvenjuleg en virðist virka, lykillinn að henni er tvímælalaust Thomas Gravesen sem hreinlega á miðjuna oft á tíðum með Dönum (virðist hins vegar ekki vera nærri því jafn ákveðinn hjá Everton). Hann er ekki bara mikill nagli heldur líka fjandi teknískur og afgangurinn af miðjumönnunum eru snöggir og teknískir þó þeir séu stundum full léttvægir. Þá er Jon Dahl Tomasson yfirburðaleikmaður og seta hans á bekknum hjá Milan segir meira um styrk Ítalíumeistaranna en veikleika Tomasson. Já, og hann er Danskur vel að merkja, hvaða krummaskuði sem bölvaður langalangaafi hans kann að hafa komið frá. Þá virðist félagi hans Ebbe Sand vera að koma til eftir erfitt tímabil en þeir gætu lent í vandræðum ef annarhvor þeirra meiðist enda bekkurinn ekkert sérstaklega sterkur þegar kemur að senterum. Vörnin ætti að vera traust, spurningamerki þó við miðvarðaparið. Rene Henriksen tekinn að reskjast og Martin Laursen ætti að vera á hátindi ferilsins en gæti verið aumur í sitjandanum bíðandi eftir að fá tækifæri til að leysa Nesta eða Maldini af hjá Milan. Arftaki Schmeichels, Thomas Sörensen, hefur svo staðið fyrir sínu. Traust lið, það vantar galdrakarla eins og Laudrup-bræðurna en hins vegar er heildarsvipur liðsins sterkari en áður og þjálfarinn er glöggur og hefur vit á því að nota leikkerfi sem hentar akkúrat fyrir þann hóp sem hann er með í höndunum.

Spá: Komast upp úr riðlinum en verða stoppaðir í Fjórðungsúrslitunum.

Lykilmenn: Thomas Helveg, hakkavélin Thomas Gravesen og Jon Dahl Tomasson.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home