Bíóuppgjör 3
Já, bestar segirðu?
Nokkrar sem voru fínar án þess þó að komast á topp tíu listann;
I, Robot, Bless Lenín, The Saddest Music in the World og Along Came Polly (Ben Stiller fór á kostum þetta árið sem aldrei fyrr) voru allar góðra gjalda verðar.
21 Grams og Igby Goes Down finnst mér ég þurfa að sjá aftur til að hafa á tilfinningunni hvort þær séu jafn frábær og mig grunar. Var eitthvað utan við mig þegar ég tók þær af ástæðum sem komu myndunum ekkert við.
Capturing the Friedmans var betri en flestar þær heimildarmyndir sem skoluðu á fjörur okkar í ár, enda ljóst að heimildarmyndir voru aðallega vinsælli í ár, ég er ekki alveg jafn sannfærður um að þær hafi almennt endilega verið miklu betri. En svona á að gera þetta, láta áhorfandann sjá sannleikann og efast um hvað sé satt og hvað ekki um leið, þannig er þetta í lífinu, ólíkt því sem áróðursmeistarar reyna að telja okkur trú um. Var þetta skot á Michael Moore? Já og nei, hann kann þetta nefnilega og gerði frábarlega í Columbine, hann gleymdi því bara í öllum hasarnum í sumar. Kannski værum við laus við Bush ef hann hefði munað þetta, hver veit?
My First Mister
Yndislega ljúf og skemmtileg mynd um samband eldri manns, búðarloku sem hinn óendanlega vanmetni Albert Brooks leikur, við táningstúlku leikna af Lelee Sobieski. Alveg í byrjun hafði maður áhyggjur af að Sobieski væri full ýkt gothstelpa en svo kom blessunarlega í ljós að það var verið að spila með það hversu ýktar aðalpersónurnar tvær voru í upphafi. Talandi um Sobieski, hún lék eins og einhverjir muna í Eyes Wide Shut, þegar maður hugsar um það, hefði Kubrick ekki átt að einbeita sér af henni, Slavanum í búningaleigunni og sambandi þeirra og Krúsa og Kidman. Mig grunar að þar væri betri saga en sú sem á endanum var sögð. Tek samt fram að EWS er vanmetinn þó hún verði seint hápunktur á ferli karls.
Saved!
Fáar komu meira skemmtilega á óvart, góðlátlegt grín gert af ofsatrúahópum kristinna í BNA. Í raun dæmigerð unglingamynd með öllum klisjunum en þegar þær eru settar í nýtt samhengi þá öðlast þær nýtt líf – fyrir utan hvað allir hafa bara gaman að því að gera myndina, það sést nefnilega.
Coffee and Cigarettes
Frábærar smásögur hér á ferð, grunar raunar að hún virki jafnvel betur í videó, ein og ein í einu. Spurning hvort Jarmusch selji þetta ekki bara sem sjónvarpsþátt?
Blindsker
Nær ágætlega hversu þversagnakenndur karakter Bubbi er, líka hversu óþolandi persóna hann er oft á tíðum þó tónlistin sé í algeru ósamræmi við það. Við höfum náttúrulega öll óverdósað af Bubba – um leið og hann verður horfinn úr sviðsljósinu að mestu þá verður loksins hægt að meta hann af einhverri alvöru sem tónlistarmann. Hálf misheppnað samt að láta spýtukarla eins og Boga Ágústsson og Ólaf fréttamenn vera með innslög, hvað koma þeir Bubba við?
Wooden Camera
Algjör perla sem ég slysaðist á á kvikmynahátíð í þeim stórkostlega bæ Galway. Tveir ungir vinir í S-Afríku, rétt að skríða á táningsaldurinn, finna lík í upphafi myndar. Sá frakkari tekur tvo dýrgripi af líkinu – byssu og kvikmyndatökuvél. Heldur byssunni fyrir sjálfan sig og lætur aðalpersónu okkar fá kvikmyndatökuvélina. Og í þessum dýrgripum eru örlög þeirra beggja ráðin. Myndin er um S-Afríku en kvikmyndalistina um leið, hvernig stráksi uppgötvar möguleika myndanna – ekki ólíkt Gullborginni Brasilísku raunar, sú var mun myrkari en þessi er bjartsýnni, báðar gera myndirnar sitt vel. Ljós þessarar myndar er vel að merkja músa kvikmyndaleikstjórans verðandi, Dana de Agrella. Þar er stjarna fædd, kvikmyndatökuvélin leikur við hana.
Þá erum við kominn að niðurskurðinum, næstu myndir hefðu alveg eins getað endað á topp tíu ef ég væri í þannig skapi:
Spider-Man 2
Frábært framhald hörkufínnar myndar. Doc Ock Molinas er frábær og Tobey Maguire og Kirsten Dunst smellpassa í hlutverk Peter Parker og Mary Jane sem fyrr. Það eina sem klikkaði var hvernig hann missti kraftana tímabundið, ekki nógu sannfærandi. En Raimi skemmtir sér konunglega, frábært bardagaatriði í lestinni og í fyrsta skipti hasar eins og maður minnist þeirra í blöðunum. Fyrir utan að maður ólst upp með Köngulóarmanninn frá Sigla og fannst hann alltaf miklu betri en Súpi og Blakan, þar af leiðandi náttúrulega bara blautur draumur fyrir okkur gömlu myndasögunördana þegar vel er gert.
Kill Bill Volume 2
Margt hörkufínt hér, líkkistuatriðið er eitthvað sem ég hef oft ímyndað mér áður en ekki verið gert jafnvel í bíó áður. Svipað atriði í Vanishing að vísu en engan veginn jafn flott þó sú ræma sé góðra gjalda verð. Á eftir að sjá báðar myndirnar í einu, þá fyrst getur maður dæmt um hversu gott verk Tarantino hefur í raun unnið.
School of Rock
Jack Black í hlutverki lífs síns, algjört rokk frá upphafi til enda og skemmtilegir krakkar. Þessi var nálægt því að koma inn en til þess að gera valið auðveldara þá var hver leikstjóri takmarkaður við eina mynd – og Linklater er þegar með eina á topp tíu listanum. Til viðbótar við það sá ég Tape á árinu, gamla mynd sem bíóin hér klikkuðu á og ég þurfti að panta að utan. Þær sönnuðu aðeins eitt, Linklater er endanlega að stimpla sig inn sem einhver besti leikstjóri samtímans.
Control Room
Gerði það sem Fahrenheit 9 / 11 þorði ekki að gera, ef hún hefði náð viðlíka vinsældum lifðum við máski í betri heimi, hver veit?
In America
Yndisleg saga um írska innflytjendafjölskyldu og svo gjörólík fyrri myndum Jim Sheridans, þó hún sé að sumu leiti um það sama. Málið var að þær voru sprengjur (In the Name of the Father, My Left Foot) og frábærar sem slíkar en þessi er meira svona slow burner (sem The Boxer var raunar líka þegar ég hugsa um það en hún gekk ekki alveg jafn vel upp, góð en ekki í úrvalshópnum sem áðurnefndar myndir ná í). Raunar hafði ég heyrt heilmikið um frammistöðu systranna tveggja og Samönthu Morton sem móðurinnar fyrirfram en hafði ekkert heyrt um stórleik Paddy Constantine í hlutverki heimilisföðursins. Þess vegna var ég lengi framan af sannfærður um að hann mundi deyja eða halda fram hjá en fór svo að átta mig á að hann væri í aðalhlutverki, eitthvað sem á einkennilegan hátt gaf myndinni heilmikið. Og atriði á spítala undir lokin er eitthvert það áhrifamesta sem ég sá í bíó í ár, tárakirtlarnir hefðu ekki þurft neitt mikið meir.
... þá er það bara topp tíu listinn, byrja á honum þegar ég kem suður í kvöld. En núna, rúta.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home