þriðjudagur, maí 10, 2005

„Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig / ef þú meinar ekki neitt með því“

Eitt forvitnilegt, með áherslu á forvitninilegt, þegar ég var uppá Mogga fyrir nokkru. Fólk horfir á mann. Maður er vanur því, sérstaklega hér í borginni, að fólk sem þekkir mann ekki horfi í gegnum mann, maður er rétt eins og ljósastaurarnir, bara viðbót við umhverfið. Við gerum þetta öll til að komast af í fjölmenninu, flestir sem þú hittir fara í einhvern stóran flokk „ókunnugra“ – fólk sem situr í sömu strætóum, keyrir um sömu götur og verslar í sömu búðum – en er samt ekkert nema draugar sem óvart búa í sömu borg og þú. Einstaka sinnum hins vegar þá hittir maður fólk sem er með radarinn uppi, fólk sem maður skynjar að taki eftir manni. Stundum er maður með radarinn uppi sjálfur, tekur eftir öðrum. Kjarni málsins er einfaldlega þessi, fólk er misforvitið um annað fólk. Sumt fólk er langoftast með kveikt á radarnum, flest fólk er sjaldnast með kveikt á honum. En sjaldan hef ég skynjað jafn mikinn fjölda fólks sem hafði áhuga á öðru fólki og uppi á Mogga, einmitt það hvernig horft var á mig þótti mér jákvæðustu merkin um heilsu blaðsins. Þau meina nefnilega eitthvað með þessu öllu saman.

Er sem sagt að slaufa lausum endum með nám vetrarins þegar þessi minning kom upp. Get vissulega sagt ýmislegt neikvætt um Moggann líka en sjáum til hvað við gerum með það ;)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home