Þegar ég bjó í Prag var einn uppáhaldsstaðurinn minn Terminal Bar, sem því miður er horfinn núna (eða fluttur) hvort sem það var vegna flóðanna eða einhvers annars. Þar var allt á einum stað. Þarna var minibókabúð sem sérhæfði sig í sérviskulegum bókum, netkaffi þar sem tölvur voru við veggina en borð og stólar í miðju þannig að maður kláraði sitt tölvupóststékk og netráp og endaði svo venjulega á borði við spjall og bjórdrykkju – og svo var videotekið. Maður gat valið úr helling af klassískum eða nýlegum költmyndum, bókað lítið herbergi niðri þar sem var hægt að vera frá einum og uppí átta (í eitt skiptið fengum við að vísu að vera um tuttugu þegar tveir strákar í FAMU voru að frumsýna stuttmyndirnar sínar) og bíómyndum af video var varpað á tjald af skjávarpa. Þarna sá ég fyrst snilldarverk eins og Badlands, Slacker og auðvitað mynd myndanna, Himininn yfir Berlín. Og alltaf hefur mér fundist vanta eitthvað svona hérna, ekki nákvæmlega eins en trútt þessari hugmynd. Bíó sem er ekki rekið á forsendum Jóns Ólafssonar eða Árna Samúelssonar þar sem lúxussalur virðist aðallega þýða stærri popppokar. Þess vegna er svo gleðilegt að sjá þessi orð Ásgríms Sverrissonar, ritstjóra Lands og sona:
Það er kominn tími til að horfast í augu við það að tilraunin í Bæjarbíói er ekki að ganga upp þrátt fyrir góðan ásetning. Alvöru dýnamískt cinematek, sem hefði það að markmiði að bjóða uppá nýtt og spennandi efni með klassík í bland, á auðvitað heima í miðbæ Reykjavíkur. Þetta væri einnig flottur staður og skemmtilega hannaður, þarna væri hægt að kaupa veitingar og ýmislegt kvikmyndatengt, t.d. mynddiska, bækur, tímarit, tónlist og annað. Slíkur staður er svo gjörsamlega nauðsynlegur og eðlilegur hluti af miðju menningarborgar að ég bara skil ekki afhverju ég er þar ekki núna að slá þetta inn! Nema þá að engin orka sé eftir í slík mál þegar plebbismi, stofnbrautir og útþensla upp um allar sveitir eiga hug manna. Getur það verið?Verð þó að taka fram að ég tel að það megi vel reka Bæjarbíó í Hafnafirði áfram þó það yrði stofna almennilegt cinematek í miðbæ Reykjavíkur. Það mætti jafnvel fara í nánari samvinnu við skóla í Hafnafirði og þá er aldrei að vita nema Hafnafjörður yrði útungunarstöð kvikmyndaleikstjóra ekki síður en handboltamanna.
4 Comments:
Sorglega staðreyndin er að maður nennir ekki út í Hafnarfjörð nema stöku sinnum en ef þetta væri í miðbænum færi maður á þær myndir sem vekja áhuga manns.
snillingur - jón anónímús indjunhöfðingi hér... - skratti langt nafn. Ég þarf greinilega að skrá mig á bloggerinn.
Var ekki hugmyndin að láta Hafnarfjarðarbíó eða Bæjarbíó í Hafnarfirði, eða hvað þetta heitir nú allt saman - þjóna hlutverki hins íslenska cinematix hér á landi? Það er ekkert sérstaklega langt í fjörðinn. Bus 140 stoppar við Hlemm og heldur svo áfram niður í miðbæ Fjarðarins, þaðan sem fimm mínútna labb er í bíóið við höfnina. Staðsetningin er brilljant. Gallinn er bara sá að aðstandendur bíósins, sem er eitt flott lúkkaðasta bíó landsins með sinn gamla sjarma - ég sá Purple Rain með manninum sem einu sinni hét Prince þarna á fullu blasti á 17. öld - það er allavegana langt síðan - hafa ekki verið að standa sig neitt sérstaklega vel. Guðveit hvað langt er síðan þarna var sýnd mynd. Örugglega bara Kvikmyndaskólinn sem sýndi þarna síðast fyrir þremur eða fjórum árum lokaverkefni nemenda.
Afar fá bíó í henni guðsvoluðu Reykjavík lúkka jafnvel og Bæjarbíóið við Fjörðinn. Einhverjir hafa talað um að gera gamla Austurbæjarbíó að cinematíki. Bíóið finnst mér hins vegar arfaljótt. Þetta er steinklumpur sem byggður var á fyllerístímabili í íslenskum arkitektur og myndi bílastæðahús sóma sér mun betur á lóðinni við Snorrabrautina.
Nú. Eftir að menn misstu Nýja bíó í hendurnar á e-pillurum sem brenndu ofan af sér Tunglið þá bíð ég miklu frekar eftir því að Óperan ruslist úr Gamla bíóið. Það væri flott cínematík. Bíóið er á besta stað í bænum. Þá er innangegnt í það frá Sólon og væri vel mögulegt að tengja þessa tvo staði saman: þ.e.a.s. Sólon sæi um vínveitingarnar en í almenna rýminu í Gamla bíói væru bækur, borð og annað. Þá er salurinn algjört súkkulaði fyrir unnendur gamalla mynda og ævafornra aðstæðna.
Einn sem skilur ekki hvers vegna borgaryfirvöld hafa ekki fyrir löngu hent óperuunnendum úr húsi Gamla bíós enda hentar salurinn engan veginn fyrir flutning á lifandi tónlist.
snillingurinn hér á ný.
Gleymdi náttúrlega aðal stöffinu í eigin kjaftæði.
Í miðborg Madridar er arfaflott cinematík og svipar að mörgu leyti tíkinu í Prag. Ég man samt ekki hvað það heitir. Þetta er gamalt hús, ævafornt bíó sem átti að fá annað hlutverk en hlaut framhaldsslíf sökum mótmæla unnenda gamalla og öðruvísi mynda. Staðsetningin er svipuð og Gamla bíó - það er í hjarta borgarinnar og frábært að kíkja þangað, svo ekki sé nema fyrir einn bjór.
Öh, kannski afþví að Óperan Á SJÁLF húsnæðið.
Skrifa ummæli
<< Home