mánudagur, apríl 18, 2005

Mean Creek & I Heart Huckabees

Mean Creek er einhvers staðar mitt á milli Stand by Me og Deliverance. Nokkrir krakkar að fara út í óbyggðir, takmarkið í upphafi að ná sér niður á hrekkjusvíni skólans sem hefur verið teymdur með en hægt og rólega fara að renna á alla tvær grímur, er strákurinn örugglega svo slæmur? Myndin er afskaplega hæg og einmitt það þrælvirkar, tíminn leið jú miklu hægar á þessum aldri. Þegar flest var ennþá nýtt. Andlitin á krökkunum fá að segja söguna mestan partinn. Efnið virkar óneitanlega meira sjokkerandi þegar um börn og unglinga er að ræða en ætti samt ekki að gera það, við horfumst ósköp sjaldan í augu við það að fáir geta verið jafn grimmir og börn. Samt eru þetta allt í grunnin góðir krakkar. En gott og vont eru miklu meiri og sterkari andstæður þá en nú þegar allir eru komnir með sínar grímur til að lifa af. Það sem kom kannski helst á óvart var að sá ágæti leikari Rory Culkin, sem var reglulega góður í You Can Count on Me og Igby Goes Down, er eiginlega veikasti hlekkur leikhópsins. Hann stendur sig ágætlega en ekkert meira. En ólíkt því sem fyrst virðist þá er hann ekki í mikið stærra hlutverki en hinir krakkarnir. Josh Peck nær að gera heilmikið með feita hrekkjusvínið George, karakter sem er blessunarlega úr takti við flestar klisjur. En það er Scott Mechlowicz, elsti en um leið óreyndasti leikarinn, sem er áhrifamestur. Við vitum mest lítið um hans persónu en hann nær einhvern veginn að dansa í gegnum hlutverkið, takturinn í myndinni ákvarðast af honum.


I Heart Huckabees á það sameiginlegt með Mean Creek að leikframmistaðan kom á óvart – í þetta skiptið þó á öfugan hátt. Jason Schwartzman, Dustin Hoffman, Lily Tomlin, Naomi Watts, Isabelle Huppert og Jude Law eru öll fín en senuþjófurinn er ótrúlegt en satt Mark Wahlberg. Það er rétt að taka það fram að ég hef megna óbeit á þessum mesta vælukjóa Hollywood, en einhvern veginn nær David O. Russell alltaf að draga fram það besta í honum. Hann var einmitt síðast almennilegur í síðustu mynd Russell, Three Kings, og hér endurtekur hann leikinn og er ótrúlegt en satt virkilega góður, hið sanna hjarta myndarinnar þó Schwartzman sé í aðalhlutverkinu. Myndin sjálf snýst um að gera grín að tilgerð og það litar hana í rauninni, langoftast virkar grínið, stundum leyfa þeir persónunum að segja eitthvað sem er í alvörunni djúpt og einstaka sinnum fellur myndin vissulega í það að hætta að gera grín að tilgerðinni og verða tilgerðarleg sjálf. En hún dansar allan tímann á mörkunum þannig að mig grunar að það komi ekki margir út af henni sammála um það hvernig tókst til.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home