þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Búkarest 2

Busl

Rigningin elti mig til Búkarest. Það var gott veður til að byrja með, á meðan ég kom mér fyrir á hostelinu og þvældist niðrí bæ. Kom síðan heim á hostel og blundaði í þrjá tíma til að ná næturlestinni úr mér og öllu miðaleysisstressinu. Svaf held ég miklu betur út af því regnið byrjaði að lemja gluggana. Komin ausandi rigning þegar ég vaknaði og ansi langt í matsölustaði frá hostelinu. Ég og frönsk freelance blaðakona (sem var að vinna að grein um flóðin hér i byrjun júlí) ákváðum samt að láta okkur hafa það, löbbuðum heillengi en vorum svo heppin að rigningin var í rólegri kantinum þá. Fundum loks veitingastað, frekar fancy en alltaf gaman að því. Á meðan við vorum að borða bætti heldur betur í rigninguna og eldingarnar lýstu staðinn mjög reglulega upp. Þegar við vorum búin að borga reikninginn hafði hins vegar stytt upp. En þegar út var komið var nærri hnéhátt fljót sem umkringdi staðinn. Þannig að það var bara að fara úr skónum og toga buxurnar eins hátt upp og þær kæmust.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home