föstudagur, ágúst 05, 2005

Miðalaus til Búkarest

Var mjög tímanlega í því að koma mér á lestarstöðina hélt ég. Fór á hostelið og náði í bakpokann rúmum klukkutíma fyrir brottför og sökum þess að það var hellidemba auk þess sem metróinn var mestmegnis i lamasessi bað ég strákinn í afgreiðslunni að hringja á taxa. Við vorum tvö að fara á Keleti stöðina þannig að það var ekki svo dýrt. En auðvitað leið heil eilífð áður en við náðum loksins sambandi, önnur eilífð í að bíða eftir bílnum og þriðju eilífðinni síðar, sökum umferðarteppna, komum við loksins a lestarstöðina. Virtist samt ætla að sleppa en síðan kemur í ljós að miðasalan á þessari lestarstöð er sú hægvirkasta sem ég hef kynnst. Þegar bara stelpurnar fyrir framan mig eru eftir sýnist mér þetta ætla að sleppa en þá barasta hverfur afgreiðslustúlkan heillengi og þegar ég lít á klukkuna og sé að ég hef 3 mínútur þá ákveð ég að taka bara sénsinn og skella mér miðalaus í lestina frekar en að vera strand í Búdapest næsta sólarhringinn. Frekar pirraður enda þó maður fyrirgefi A-Evrópu venjulega svona hluti þá er Búdapest bara sú borg þeim megin járntjalds sem er með langmestu heimsborgarakomplexana þannig að ég ætla bara að vera fúll.

Kem svo í lestina, asnast nattúrulega í - algjörlega ómerkt - koju lestarvarðarins, en hann samþykkir að selja mér miða til landamæranna. Er svo vonlaust stressaður hvað gerist hinum megin við landamærin enda fékk ég hvorki kvittun né miða. Það gengur samt allt, enginn miði né kvittun Rúmeníu megin svosem en þeir mega alveg stinga þessu í eigin vasa mín vegna svo framarlega sem mér er ekki hent út á einhverri vafasamri landamærastöð. Lestin siglir svo inní Rúmeníu átta um morgunin, blessunarlega þrem tímum of sein, 5 að morgni er nefnilega ekki spennandi tími til að koma i ókunna borg.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home