þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Banja Luka

Leigubilstjórinn og dóttir hans

Þegar ég skipti um vagn og fer frá Króatíu til Bosníu þá breytist allt. Flugurnar breytast í ryk og rykið í flugur, því hér eiga draugarnir ennþá heima.

Svo stoppum við. Einhverjar lagfæringar á teinunum og lestarvörðurinn segir við mig autobus. Téð rúta reyndist svo vera tveir pínulitlir og drullugir Jugo og farþegunum er skipt niður á þá og keyra í þeim til Banja Luka, mestan partinn í svartaþoku. Þegar þangað kemur þá sé ég engan hraðbanka nálægt lestarstöðinni en sé eitt stykki leigubíl sem ég rölti að og sé þá að bílstjórinn situr við kaffihúsið að innbyrða einhverskonar einkennilega pylsusúpu og hann bíður mér upp a kókglas á meðan ég bíð. Á veitingastaðnum eru tveir stráklingar að slást og heimilislaus kona gengur í hringi í kringum okkur.

Síðan höldum við af stað, finnum hraðbanka en áður en við finnum hótel er leigubílstjórinn búin að bjóða mér að gista frekar hjá honum fyrir sanngjarnt verð. Án þess að hafa hugmynd um hvort hótelið yrði ódýrara samþykki ég enda getur maður alltaf gist á hótelum en sjaldnast hjá ókunnugum leigubílstjórum. Rétt áður en við komum heim til hans hringir hann í dóttur sína sem talar ensku, ég tala örstutt við hana en við virðumst bæði álíka ringluð af ólikindaháttum föðursins. Ég fer inní íbúðina, lítil aukaíbúð tengd við aðalíbúðina. Það er ekkert að drekka nema vatn og enginn matur. Ég er í miðju hæðóttu íbúðarhverfi, ofarlega, og engir ljósastaurar sjáanlegir, aðeins kolniðamyrkur. Ég ákveð samt að labba örstutt, ekki nógu langt til að villast sem virðist nógu auðvelt þarna - og athuga hvort ég finn sjoppu til að kaupa samloku og kók.

Gefst fljótlega upp en þegar ég er við það að komast aftur upp í íbúðina þá sé ég að það er mótorhjól að koma upp götuna. Ég er endurskinsmerkjalaus og þar sem það sést varla spönn frá rassi þá er það visst áhyggjuefni þannig að ég fer eins langt út í kannt og ég kemst. En mótorhjólið stoppar og dóttir leigubílstjórans spyr hvort við höfum nokkuð talað saman í síma nokkrum mínútum fyrr.

Við Ivana stöndum þarna í korter, hún á vespunni og ég í stuttbuxunum, og eigum eitthvað undirfurðulegt og gullfallegt móment. Hún er falleg og virðist eldri en átján - en hun á í ástar/haturs sambandi við foreldrana og Banja Luka sem er ótrúlega keimlíkt því sem ég átti við Akureyri og mína fjölskyldu þegar ég var átján. Ég hugsaði þetta allt en ég man ekki hvort ég hafði einhverntímann þá einlægni sem hún hafði að bera að segja þetta. Þegar maður var átján og allt var hratt og maður var ekki orðinn svona fjandi cynískur.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home