þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Búkarest 5

Líkneski Nicolae

Það eru bráðum sextán ár síðan stóra blóðsugan dó. Blóðsugan sem mergsaug landið svo rækilega að því er enn að blæða, gervöll þjóðin virðist máttfarin. Sérstaklega af því að þeir sem nú ráða virðast hafa lært ansi mikið um spillingu og vanhæfni frá félaga Nicolae. Afleiðingin meðal annars allur þessi fjöldi betlara sem er miklu aðgangsharðari en nokkurs staðar annarsstaðar.

Síðustu æviár Ceausescu fór til dæmis 70 % efnahags Rúmeníu í að byggja höllina hans, afsakið, Höll fólksins. Næststærsta bygging i veröldinni, aðeins Pentagon er stærri. Merkilegt að tvær stærstu byggingar mannkyns standi aðallega fyrir vanhæfni, spillingu og á köflum hreina illsku. Kíkti í höllina á sunnudaginn. Bíósalurinn nokkuð flottur en auðvitað gleymdu þeir glasahöldurunum. Annars er höllin vissulega glæsileg, en ég get eiginlega ekki sagt að hún sé falleg. Til þess er hún alltof köld, karakterlaus. Nicolae var þegar allt kom til alls sveitadurgur, þetta er meira kits en alvöru klassi þó dýrt sé þetta vissulega. Væri samt alveg hægt að gera fína hluti með þetta.

Það er þó ennþá meira niðurdrepandi að kíkja á Unirii buluvard. Það var byggt til höfuðs Champ Elysee, viljandi einhverjum sex metrum lengra. En það er steindautt. Vissulega óvenjuhreint og smekklegt fyrir Búkarest, en það er ekkert líf þarna. Einhverjir bílar og búið. Sýnist vera aðallega stjórnarráðsbyggingar við þessa breiðgötu. Fyrir allt þetta voru rifin niður stór hverfi af gömlu Búkarest þannig að sjöþúsund manns fóru á götuna – þar sem sumir eru enn, allt fyrir gosbrunna sem enginn sér.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home