föstudagur, júní 11, 2004

Svíþjóð - C - riðill

Sænska liðið verður í harðri baráttu við hið Danska um að fylgja Ítölum áfram – en verður líklega að sætta sig við að horfa á Dani í Fjórðungsúrslitum. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þó liðið sé traust þá vantar alveg þessa Brolin-týpu á miðjuna sem kemur með smá ævintýri til viðbótar við alla verkamennina úr stálverksmiðjunum. Markmaðurinn Andreas Isaksson þykir traustur en gæti verið fullungur en forveri hans, Magnus Hedman, hefur verið í tómu tjóni undanfarin tímabil og er nú orðinn varamaður hins unga Isaksson. Miðvarðaparið er með þeim sterkari í keppninni, Olof Mellberg hefur spilað vel fyrir marga og misjafna stjóra hjá Aston Villa og Michael Svensson hefur komið á óvart hjá Southampton. Bakverðirnir eru ekki í sama klassa en traustir þó og áður en andstæðingarnir komast að þessari vörn þurfa þeir að fara fram hjá Keltanum sterka Johann Mjallby. En fyrir framan hann á miðjunni þá koma helstu veikleikar Svía í ljós. Anders Svensson er fínn í langskotum og berst vel en annars takmarkaður leikmaður og það er svo til marks um leikmannafátækt liðsins á miðjunni að Mikael Nilsson er spáð byrjunarliðssæti. Gimsteinninn á miðjunni er þó ónefndur, snillingurinn frá Arsenal, Fredrik Ljungberg. En því miður fyrir Svía þá á hann ennþá eftir að sýna Arsenal-formið í sænsku treyjunni. Svo er hinn ungi Kim Kallström sem myndi styrkja liðið ef hann byrjar inná en eins og Svía er háttur þá virðast þjálfarateymið ætla að spila þetta öruggt og halda Svensson. Það er líka eitthvað svo sænskt að hafa tvo Svenssona í liðinu. En frammá við verða þeir sterkir, Henrik Larsson náttúrulega kominn til baka og Marcus Allback er andstæða Ljungberg, slappur í ensku deildinni en miklu beittari með landsliðinu. Hann berst um að byrja með Larsson við Zlatan Ibrahamovic, vandræðabarnið í sænskum fótbolta. Ef hann spilar eins og hann best getur þá er hann þeirra besti maður – en það er stórt ef. En eitthvað segir mér að leikur Svía og Dana verði mikilvægasti leikur lokaumferðar riðlakeppninnar, hreinn úrslitaleikur um að komast áfram. Svíarnir verða þar þó væntanlega undir þó naumt verði.

Spá: Koma til með að finna lyktina af Fjórðungsúrslitunum fram á síðustu mínútu. En falla út á slakari markatölu en Danir.

Lykilmenn: Olof Mellberg, töffarinn Fredrick Ljungberg og Henrik Larsson.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home