laugardagur, janúar 15, 2005

Leiðinda leiðari og frábæri leiðari

Í dag varð Mogginn sér til skammar á meðan DV blómstraði.
Mogginn á oftast vandaða leiðara, hver sem nú annars skrifar þá (væri stór plús að vita fyrir víst hver skrifar, flesta grunar Styrmi en aðstoðarritstjórarnir tveir taka vafalítið sína spretti og þeir þrír eru talsvert ólíkir karakterar), og stundum innblásna. En seinni hluti leiðarans í dag, „Impreglio og virkjunaframkvæmdirnar“ var þess eðlis að blaðamaður á ekki undir neinum kringumstæðum að láta svona frá sér.

Það skiptir ekki máli hvar þú stendur í málinu. Vandamálið er að Mogginn segir:

Þessar deilur eru farnar að hafa skaðleg áhrif á framkvæmdirnar við Kárahnjúka sem nú eru töluvert á eftir áætlun. Þess vegna er mikilvægt að setja þær niður.


Fyrir ríkisstjórnina sjálfsagt, atvinnulífið hugsanlega ef þú ert á þeirri línu. En ekki fyrir Moggann, ekki fyrir fjölmiðla. Þeirra hlutverk, alltaf, er að gagnrýna, halda uppi aðhaldi. Aðrir eiga að semja um sættir. En sættir eru þó stórlega ofmetnar í nútímasamfélagi. Einu sinni voru þær máski vanmetnar en eru eitt helsta einkenni nútímamans þar sem aðalatriðið er að hafa það gott.Þægilegt. Sást best í forsetakosningum Bandaríkjanna. Þær voru þær hatrömmustu á minni lífstíð en samt var viðkvæðið eftir á að nú væri mikilvægast að sætta þjóðina. Líka frá Kerry. Eigum við semsagt að vera sátt við það að í fjögur ár í viðbót verði löggiltur morðóður fáviti valdamesti maður jarðkringlunnar? Já, því aðalatriðið er að vera sáttur. Ekki glaður, ekki hamingjusamur, bara ekki reiður. Hafa það gott, þægilegt. Fólk drepst útí heimi og við getum haft það þægilegt við sjónvarpsgláp annað kvöld og fundist við vera að bjarga heiminum þannig að allir verði sáttir.

DV hefur hins vegar virst vera í krísu eftir að þeir misstu sitt besta efni, leiðara Illuga, úr blaðinu og hefur átt á hættu að breytast í málgagn Hákons Eydal. Leiðurunum hefur verið dreift á milli Mikka, Jónasar og annara starfsmanna með misjöfnum árangri – en í dag tók Páll Baldvin við og skrifaði pistil sem fæstir hefðu haft þor og dug í að skrifa. Hann tekur fyrir barneignir ungra mæðra á Íslandi, eitthvað sem einu sinni var ranglega tabú en er nú orðið, jafn ranglega, eitthvað sem enginn má lasta. Vissulega eru til frábærar mæður sem hafa eignast sín börn sextán ára. En því miður eru þær alltof margar um leið sem hafa nær stoppað í þroska, þær áttu eftir að gera alltof margt þegar barnið kom. Það eru nefnilega foreldrarnir sem ala þig upp fram á unglingsárin. Svo kemur smá flipp, smá gelgja, en þá er komið að þér að ala sjálfan þig upp. Fæstir ráða við að ala sjálfan sig upp um leið og aðra, a.m.k. þegar maður hefur litla eða enga reynslu í því. Sumir virðast halda að barnið ali þig upp, vissulega getur það verið þroskandi að eignast barn – ef þú notar það til að þroska þig. En það kemur enginn þroski af sjálfu sér og satt best að segja eru einu mæðurnar sem ég minnist þess að hafi þroskast við barneignir þær sem aldrei minnast á það einu orði að barneignin hafi þroskað þær en láta þess í stað verkin tala. En gefum Páli Baldvini orðið:

Árið 2003 voru eitt hundrað sextíu og sjö börn í heiminn borinn af mæðrum á aldrinum fimmtán til nítján ára. Í sama aldursflokki voru skráðar um hundrað og fjörutíu fóstureyðingar.

...

Þetta eru ljótar tölur.
Að baki þeim búa sögur af sálarangist, vonbrigðum og basli ungra mæðra, oft flótta og ábyrgðarleysi barnsfeðra þeirra.
Unglingaþunganir eru einkenni á samfélagi sem er afturhaldssamt og frumstætt. Þær koma í veg fyrir eðlilegan og sjálfsagðan þroska einstaklings, hamla menntun hans og skipa honum í hóp þeirra launalægstu. Þær eru helsi á jafnrétti kvenna, valda víða svæðisbundinni stöðnun og eru til marks um lágt menntunarstig.


Það sorglegasta er svo auðvitað þetta; það er svo auðvelt að koma í veg fyrir þetta. Einu sinni þurfti einfaldlega að stunda skírlífi til að hafa allt á hreinu og allar aðgerðir til varnar barneignum voru stórhættulegar lífi konunnar. En svo er ekki núna. Jafnvel þó alltaf geti gerst slys þá er rétt að athuga að slys er eitthvað sem gerist óvart, án nokkurs vilja. Rifinn smokkur, vitlaus pilla. Ekki það að drekka of mikið, gleyma sér. Það er klaufaskapur, ábyrgðarleysi – barnaskapur sem hefði átt að vera búið að kenna krökkunum að passa sig á.

p.s.: Vil þó taka fram að framtak sjónvarpsstöðvanna sem verður annað kvöld er lofsamlegt þó finna megi skuggahliðar. Ég vona líka að fólk þar gleymi því þó ekki að mæla árangurinn ekki bara í krónutölunni sem safnast, þó hún skipti vissulega miklu máli, heldur ekki síður í því hversu vel hlutirnir verði gerðir. Þáttur sem þessi er nefnilega ekkert síður minnisvarði, virðingarvottur, frá okkur til þeirra. Því þarf að tjalda því besta, ekki bara henda gömlum afgöngum í liðið. En ef Villi naglbítur nær að gefa tóninn þarf ekki að hafa áhyggjur.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home